Handbolti

Kemur Du Rietz til Löwen?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Guðmundur Guðmundsson gæti fengið góðan liðsstyrk til Rhein-Neckar Löwen í sumar en samkvæmt þýskum fjölmiðlum er Kim Ekdahl du Rietz, Svíinn öflugi, á leið til félagsins.

Samkvæmt þýska blaðinu Bild mun nú þegar vera samkomulagi í höfn á milli félagsins og leikmannsins en það mun þó ráðast af fjárhagslegri stöðu félagsins hvort að af félagaskiptunum verða en Du Rietz leikur nú með Nantes í Frakklandi.

Því er haldið fram að mögulega verða Pólverjarnir Krzysztof Lijewski og Karol Bielecki leystur undan samningum sínum þar sem þeir eru báðir á háum launum. Umboðsmaður þeirra, Mariusz Czok, neitar því ekki í viðtali við blaðið að umræður þess efnis hafi átt sér stað við forráðamenn Löwen.

Lijewski kom til félagsins síðastliðið sumar og er samningsbundin Löwen til 2015. Bielecki hefur verið lengur hjá félaginu og gerði nýjan samning í júní 2010.

Mikil óvissa hefur ríkt um fjárhagslega framtíð Rhein-Neckar Löwen og aðkomu Danans fjársterka, Jesper Nielsen, að félaginu. Hann er sagður vilja selja sinn hlut í félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×