Handbolti

Þjóðverjar komnir áfram eftir öruggan sigur á Svíum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Þjóðverjar tryggðu sér sæti í milliriðli á EM í handbolta í Serbíu eftir öruggan fimm marka sigur á Svíum í dag, 29-24, en sænska landsliðið var þegar búið að tryggja sig áfram. Þjóðverjar fara hinsvegar með stigin úr þessum leik inn í milliriðilinn.

Uwe Gensheimer skoraði 9 mörk fyrir Þjóðverja og Patrick Groetzki var með 5 mörk. Kim Ekdahl du Rietz skoraði 8 mörk fyrir Svía og Jonas Larholm var með 6 mörk.

Þjóðverjar byrjuðu leikinn afar vel. Uwe Gansheimer skoraði meðal annars fjögur mörk á fjögurra mínútna kafla á upphafsmínútunum og Þjóðverjar voru komnir í 8-3 eftir aðeins tíu mínútna leik. Þjóðverjar náðu mest sex marka forskoti í hálfleiknum og voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 20-15. Uwe Gensheimer skoraði átta mörk í fyrri hálfleiknum.

Svíar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og minnkuðu muninn strax í þrjú mörk, 20-17 en nær komust þeir ekki og munurinn varð strax aftur fimm mörk. Þjóðverjar héldu síðan ágætu forskoti út leikinn og unnu á endanum með fimm marka mun.

Tékkar og Makedónar spila á eftir úrslitaleik um þriðja og síðasta sætið inn í milliriðilinn en Tékkum nægir jafntefli. Þjóðverjar munu fara með fjögur stig inn í milliriðilinn far svo að Makedónar vinni. Tékkar unnu fyrsta leikinn á móti Þjóðverjum en töpuðu svo fyrir Svíum.

Úrslit og staðan í öllum riðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×