Handbolti

Sverre: Snýst um að hausinn á okkur sé í lagi

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Sverre Andreas Jakobsson og Vignir Svavarsson á æfingu í gær.
Sverre Andreas Jakobsson og Vignir Svavarsson á æfingu í gær. Mynd/Vilhelm
Ljúfmennið Sverre Andreas Jakobsson drap tímann hóteli landsliðsins í gær með kaffibolla að spila tölvuleik í símanum. Fyrir framan hann lá þykk skólabók sem virkaði ekkert allt of spennandi.

„Ég er að reyna að lesa þessa bók en þarf aðeins að taka mig taki og lesa meira í henni," sagði Sverre en hann er að taka kúrs í vinnusálfræði. „Hún mætti halda mér aðeins betur við efnið en þetta er ágætt samt."

Sverre segir að eðlilega sé andrúmsloftið í herbúðum landsliðsins talsvert léttara eftir sigurinn góða á Norðmönnum sem liðið ætli þó ekki að dvelja of lengi við.

„Það er betra að enda leikina svona og styrkleikamerki. Við tökum þennan sterka karakter inn í Slóvenaleikinn," sagði Sverre sem viðurkennir fúslega að varnarleikurinn hafi ekki verið nógu góður gegn Noregi. Úr því verði bætt í kvöld.

„Það var allt of mikið óöryggi í varnarleiknum en seinni hálfleikur mun skárri," sagði Sverre en leikmenn rifust ekkert í hálfleik gegn Noregi þó svo vörnin hefði fengið á sig 20 mörk í fyrri hálfleik.

„Við töluðum um hlutina, drógum andann. Gummi fékk svo að segja það sem hann þurfti að segja. Honum fannst vörnin ekkert spes og það kom skýrt fram hjá honum án þess að ég ætli að greina nánar frá orðalaginu," sagði Sverre og hló við.

„Þetta er ekki spurning um getu eða líkamlegan styrk. Þetta snýst um að hausinn á okkur sé í lagi og hann verður það núna. Þetta verður hrikalega skemmtilegur leikur og við ætlum að taka hraustlega á þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×