Handbolti

Ásgeir Örn: Verðum að passa okkur á Slóvenum

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. Mynd/Vilhelm
Það er víða pottur brotinn á hóteli landsliðsins. Netið er lélegt upp á herbergjunum og kaffið er heldur ekki upp á margar loðnur eins og maðurinn sagði. Ásgeir Örn Hallgrímsson var þó búinn að finna réttu blönduna í gær.

„Þetta er espresso macchiato mix. Það má alveg vinna með þetta. Við erum mest í þessu," sagði Ásgeir Örn léttur en hann hefur tekið talsverðan þátt í fyrstu tveimur leikjunum og staðið sig vel.

„Þessi Noregssigur var hrikalega sætur. Sérstaklega miðað við stöðuna sem við vorum búnir að koma okkur í og hvað við vorum lélegir lengi vel. Þetta sýnir karakterinn í okkur og á hvaða stall við erum komnir. Spilum illa í 50 mínútur en vinnum samt leikinn. Við vorum ekki lélegir heldur frekar ömurlegir," sagði Ásgeir hreinskilinn.

Í kvöld er annar hörkuleikur gegn Slóvenum. Það verður stríð í 60 mínútur enda gefast Slóvenar aldrei upp.

„Þeir eru snarbilaðir og nánast á heimavelli. Þeir tjúllast alveg við stuðninginn sem þeir fá úr stúkunni. Við verðum að passa okkur á þeim og þetta verður ekki auðveldari leikur en hinir tveir. Við tökum þennan leik mjög alvarlega," sagði Ásgeir.

„Það er enginn að fara fram úr sér þrátt fyrir þennan sigur á Noregi og það er ekkert unnið enn sem komið er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×