Handbolti

Guðjón Valur: Það verður mikið hatur í stúkunni

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Vilhelm
Guðjón Valur Sigurðsson hefur leikið ófáa leikina gegn Slóvenum á sínum langa landsliðsferli og veit vel að það er lið sem berst alltaf til enda og gefst aldrei upp. Sama hvað á bjátar.

„Þetta er eins og litli bróðir Króatíu. Þeir eru með útsjónarsaman miðjumann í Uros Zorman og svo flinka stráka. Þeir eru kannski ekki eins góðir og Króatarnir en samt góðir. Þeir eiga það líka til að láta áhorfendur æsa sig upp í einhverja vitleysu. Það gerir leikina bara skemmtilegri," sagði Guðjón en hann getur ekki beðið eftir því að spila fyrir framan slóvensku áhorfendurna.

„Það er hrikalega gaman. Það er með því skemmtilegra sem maður gerir að mæta svona áhorfendum því það er svo mikið hatur í gangi. Það er hlegið að manni ef maður gerir mistök, púað ef maður gerir eitthvað gott og manni hótað öllu illu. Svo dettur allt í ljúfa löð eftir leik. Maður á að njóta þess að spila svona leiki," sagði Guðjón sem er með báða fætur á jörðinni eftir Noregsleikinn.

„Við erum með allt of reynslumikið lið til þess að missa okkur. Það er allt of mikið eftir af mótinu og engin ástæða til þess að vera í einhverjum flugeldasýningum. Við getum enn bætt okkar leik talsvert og þetta er búið að vera kaflaskipt. Við þurfum að vera yfirvegaðri í vörninni og halda hausnum í lagi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×