Handbolti

Aron með fjögur mörk í níu marka sigri Kiel á Füchse Berlin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Kiel vann öruggan níu marka sigur á Füchse Berlin, 35-26, í stórleik dagsins í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta og komst fyrir vikið upp fyrir Füchse Berlin og í 2. sæti deildarinnar. Kiel er fimm stigum á eftir HSV Hamburg sem vann 35-30 sigur á Magdeburg fyrr í dag.

Kiel hefndi þar með fyrir tapið á móti Füchse Berlin í fyrri umferðinni en lærisveinar Dags Sigurðssonar unnu þá 26-23 sigur á Kiel á heimavelli sínum við litlar vinsældir hjá þjálfaranum Alfreði Gíslasyni.

Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kiel í leiknum en Alexander Petersson var með þrjú mörk fyrir Füchse Berlin. Christian Zeitz var markahæstur hjá Kiel með átta mörk en Aron var einn af fjórum leikmönnum liðsins með fjögur mörk. Sven-Sören Christophersen var markahæstur hjá Füchse Berlin skoraði 6 mörk en Michal Kubisztal skoraði 5 mörk.

Kiel var 16-13 yfir í hálfleik en gerði endanlega út um leikinn með því að breyta stöðunni úr 21-18 í 31-21 á tíu mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×