Handbolti

Þjálfari Gummersbach hundfúll út í Alfreð og Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrick Wiencek, leikmaður Gummersbach.
Patrick Wiencek, leikmaður Gummersbach. Nordic Photos / Bongarts
Sead Hasanefendic, þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Gummersbach, er ekki sáttur við Alfreð Gíslason, kollega sinn hjá Kiel.

Segir hann að Kiel hafi samið við leikmanninn efnilega, Patrick Wiencek, án vitundar sinnar. Samkvæmt fréttum í þýskum fjölmiðlum mun Wiencek ganga til liðs við Kiel þegar að samningur hans við Gummersbach rennur út árið 2012.

„Við viljum ræða við þá aðila hjá Kiel sem bera ábyrgð á þessu," sagði Hasanefendic við þýska fjömiðla.

„Þeir þurfa að útskýra fyrir okkur af hverju þeir gerðu þetta án okkar vitundar. Sérstaklega olli Alfreð Gíslason mér miklum vonbrigðum. Hann þjálfaði eitt sinn Gummersbach og veit hversu mikilvægur svona ungur leikmaður er fyrir félag eins og okkar. Svona viðskiptahættir eiga ekkert skylt við sanngirni eða íþróttamennsku."

Gummerbach hefur nú sett Wiencek út úr liðinu og hótar Hasanefendic því að nema að Kiel komist að samkomulagi um að kaupa kappann í sumar muni hann fá að sitja upp í stúku þar til að samningurinn rennur út eftir eitt og hálft ár.

Skemmst er að minnast þess þegar að Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin hótaði að gera slíkt hið sama við Alexander Petersson þegar hann samdi við Rhein-Neckar Löwen.

Hins vegar hefur Alexander spilað með Berlin í undanförnum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×