Handbolti

Umfjöllun: Bronsið til Spánverja

Smári Jökull Jónsson í Malmö skrifar
Raul Entrerrios og Viran Morros fagna bronsinu
Raul Entrerrios og Viran Morros fagna bronsinu Mynd / AFP

Spánverjar hirtu bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í handknattleik eftir sigur á Svíum í Malmö Arena fyrr í dag. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Spánverjar eru vel að bronsinu komnir eftir aðeins einn tapleik á mótinu, gegn Dönum í undanúrslitum.

Fyrri hálfleikur fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtilegan handbolta. Báðum liðum gekk illa í sóknarleiknum og voru fá mörk skoruð. Svíar fengu dæmd á sig mörg sóknarbrot á meðan Spánverjum gekk bölvanlega að koma boltanum framhjá Johan Sjöstrand í markinu sem var stórkostlegur í fyrri hálfleiknum og var með 58% markvörslu.

Jafnt var á flestum tölum í hálfleiknum og ljóst að bæði lið voru staðráðin að nýta sér þennan síðasta möguleika til að ná sér í verðlaun á þessu móti. Staðan í hálfleik var 11-11.

Spánverjar hófu seinni hálfleikinn betur og náðu mest þriggja marka forystu. En Svíar náðu að jafna og vandræði liðanna í sóknarleiknum héldu áfram.

Undir lokin voru það svo Spánverjar sem náðu tökunum á leiknum. Þeir komust í tveggja marka forystu þegar skammt var eftir og þó svo að Svíar næðu að halda í við þá náðu þeir ekki að jafna metin eftir það. Heimamenn voru mjög óánægðir með dómgæsluna í lokin en dómararnir misstu tökin á síðustu mínútunum þó svo að það hafi ekki haft úrslitaáhrif.

Spánverjar fóru að lokum með sigur af hólmi, lokatölur 24-23 og þeir fögnuðu bronsinu innilega í leikslok. Sjöstrand var bestur í liði Svía en Alberto Entrerrios lék vel í liði Spánverja ásamt markverðinum Arpad Sterbik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×