Handbolti

Dönsku leikmennirnir spila „frítt“ á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mikkel Hansen fangar í leik með danska landsliðinu.
Mikkel Hansen fangar í leik með danska landsliðinu. Nordic Photos / AFP
Danska handknattleikssambandið hefur enn ekki fundið nýja styrktaraðila fyrir landsliðið og því munu leikmenn ekki fá sérstaklega greitt fyrir að spila á HM eins og venjan er.

Reyndar spila íslensku landsliðsmennirnir alltaf frítt fyrir landsliðið og hafa enga bónusa fengið þrátt fyrir góðan árangur á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og Evrópumeistaramótinu í Austurríki í fyrra.

Hins vegar hefur formaður danska sambandsins, Morten Stig Christensen, lofað að kíkja í kistur sambandsins ef Danir verða heimsmeistarar.

Leikmennirnir sjálfir hafa hins vegar sjálfir sagt að þeir vilji ekki fá neina greiðslu nema að peningurinn sé til.

Flugfélagið Cimber Sterling hefur verið styrktaraðili danska landsliðsins undanfarin ár en sá samningur rann út um áramótin.

„Við ætlum ekki að lækka verðið bara til að fá styrktaraðila," sagði Christensen við danska fjölmiðla en fimm mánaða leit að nýjum styrktaraðila hefur ekki enn borið árangur.

Christensen segir að það sé góð fjárfesting að auglýsa á búningum danska landsliðsins enda spili liðið mikið, bæði á stórmótum og í undankeppnum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×