Handbolti

Robert Hedin, þjálfari Norðmanna: Dómararnir hjálpuðu Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku varnarmennirnir tóku vel á móti þeim austurrísku í gær.
Íslensku varnarmennirnir tóku vel á móti þeim austurrísku í gær. Mynd/AFP
Robert Hedin, þjálfari norska landsliðsins, var meðal áhorfenda þegar Ísland vann 26-23 marka sigur á Austurríki í gær eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik. Ísland og Noregur mætast á morgun og Hedin óttast ekki íslenska liðið.

„Austurríki var mun betra liðið í þessum leik," sagði Robert Hedin við Verdens Gang. „Markmaður Íslands varði vel og þeir voru að spila góða vörn," sagði Hedin en hann var ekki sáttur með frammistöðu dómarana.

„Dómararnir hjálpuðu íslenska liðinu. Austurríkismenn fengu svo marga brottrekstra að það var alveg fáránlegt," sagði Hedin.

Verdens Gang spurði Ingimund Ingimundarson út í ummæli norska þjálfarans. „Hann má segja það sem hann vill. Dómararnir voru allt í lagi og auðvitað förum við eins langt og dómarinn leyfir," sagði Ingimundur.

„Við spiluðum ekki vel í fyrri hálfleik en fengum þrumuræðu frá þjálfaranum í leikhléinu og vorum betri í seinni hálfleiknum. Við vorum með frábæran markvörð og vörnin var góð," sagði Ingimundur ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×