Handbolti

Ungverjar unnu Þjóðverja með tveimur mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungverjar fagna í kvöld.
Ungverjar fagna í kvöld. Mynd/AFP
Ungverjar komu sterkir til baka eftir þrettán marka tap á móti Frökkum á laugardaginn og unnu óvæntan 27-25 sigur á Þjóðverjum í okkar milliriðli á HM í handbolta í dag. Ungverjar eru því með fjögur stig og Ísland en Ísland er enn í þriðja sætinu á betri árangri úr innbyrðisleikjum á móti Ungverjum.

Ungverjar byrjuðu vel í leiknum og komust í 4-1 eftir aðeins sjö mínútna leik. Þá tók Heiner Brand leikhlé og þýska liðið svaraði kalli hans með því að skora næstu sex mörk. Þjóðverjar komust í 7-4 og voru síðan skrefinu á undan Ungverjum fram að hálfleik. Þýska liðið var síðan tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12-10.

Ungverjar náðu að jafna leikinn strax í byrjun seinni hálfleiks, tóku síðan frumkvæðið í leiknum og voru um tíma tveimur mörkum yfir. Þjóðverjar jöfnuðu leikinn aftur en Ungverjar komust aftur tveimur mörkum yfir á lokakaflanum.

Þjóðverjar náðu að minnka muninn í eitt mark á lokamínútunum en tókst aldrei að jafna og Ungverjar fögnuðu sínum fyrsta sigri í milliriðlinum. Þessi úrslit þýða að verði Ísland, Ungverjaland og Þýskaland jöfn að stigum þá stendur Íslands best af öllum í innbyrðisleikjum þessarra þriggja liða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×