Handbolti

Landsliðið okkar lítur mjög vel út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson átti flottan leik í gær og fagnar hér ásamt nýkrýndum íþróttamanni ársins, Alexander Peterssyni.
Björgvin Páll Gústavsson átti flottan leik í gær og fagnar hér ásamt nýkrýndum íþróttamanni ársins, Alexander Peterssyni. Fréttablaðið/Anton

Íslenska landsliðið í handbolta hóf lokaundirbúning sinn fyrir HM í handbolta með frábærum sigri á Þjóðverjum í Laugardalshöllinni í gær. Liðið er komið í rétta gírinn sem eru frábærar fréttir enda vika í HM.

Það mátti sjá aftur geðveikina í vörninni sem strákarnir hafa farið svo langt á undanfarin misseri og þá reif Björgvin Páll Gústavsson sig upp og sýndi hversu megnugur hann er í markinu. Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson áttu báðir flottan leik í miðri vörninni. Ingimundur kórónaði síðan góða frammistöðu sína með því að skora þrjú glæsileg hraðaupphlaupsmörk.

Íslenska liðið var 14-12 yfir í hálfleik eftir að hafa mest náð þriggja marka forskoti. Liðið byrjaði síðan seinni hálfleikinn frábærlega og náði um tíma fjögurra marka forskoti. Þjóðverjar nýttu sér einbeitingarleysi um miðjan hálfleikinn og komu muninum niður í eitt mark en íslenska liðið gaf þá aftur í og tryggði sér öruggan sigur.

„Vörnin var hrikalega öflug og það var mikill munur á henni og í síðustu landsleikjum. Við erum að berjast eins og ljón og lítum vel út varnarlega séð," sagði Björgvin Páll. „Það var gott fyrir mig persónulega að það gekk vel í kvöld því ég átti ekki frábæran leik um daginn. Ég er mjög sáttur með minn leik í dag," sagði Björgvin sem varði 17 skot í leiknum.

„Þetta lítur mjög vel út og hver sigur styrkir okkar sjálfstraust sem lið. Ég var sáttur við vörnina sem var grimm og gekk mjög vel. Það var góð hjálparvörn og lítið um taktísk mistök. Björgvin varði einhverja 15 til 20 bolta og ef við fáum einhverja fimmtán bolta frá honum í þessari keppni þá er ég sáttur," sagði Ólafur Stefánsson landsliðsfyrirliði sem var markahæstur með sex mörk. Aron Pálmarsson stimplaði sig líka inn og lék stórt hlutverk bæði í sókn og vörn.

Seinni leikur þjóðanna verður í Laugardalshöllinni klukkan 17.00 í kvöld og það verður síðasti leikurinn fyrir HM í Svíþjóð og kjörið tækifæri fyrir íslensku þjóðina að sýna sinn stuðning í verki með því að troðfylla Höllina. Liðið sýndi það í gær að það á ekkert annað skilið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×