Handbolti

Guðjón Valur: Margir möguleikar opnast eftir ár

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón segir að ef Guðmundur Guðmundsson meini honum að fara til Danmerkur muni hann klára sinn samning hjá Rhein-Neckar Löwen.
Guðjón segir að ef Guðmundur Guðmundsson meini honum að fara til Danmerkur muni hann klára sinn samning hjá Rhein-Neckar Löwen. Fréttablaðið/Valli
Framtíð hornamannsins Guðjóns Vals Sigurðssonar er í óvissu. Skartgripajöfurinn Jesper Nielsen, sem fer fyrir liðum AGK og Rhein-Neckar Löwen, hefur lýst því yfir, oftar en einu sinni, að Guðjón muni spila með AGK á næsta ári. Guðjón segir að það sé ekki rétt hjá Nielsen að hann spili með AGK á næsta ári.

„Staðreyndin er sú að við Jesper höfum rætt saman og ég hef samþykkt hans tilboð upp á eins árs samning. Málið er aftur á móti það að ég er samningsbundinn Löwen út næstu leiktíð og ef ég fæ ekki samþykki frá Löwen þá fer ég ekki til Danmerkur. Að sama skapi dettur upp fyrir sá samningur sem ég hef samþykkt við Jesper um að fara til Danmerkur," sagði Guðjón Valur við Fréttablaðið í gær en hann viðurkenndi að það væri leiðinlegt að standa í þessum sögusögnum og óvissuástandi þegar hann vildi einbeita sér að því að spila handbolta.

„Ef þjálfarinn [Guðmundur Guðmundsson] segir nei þá fer ég ekki neitt og ekkert að því. Ef þeir leyfa mér að fara þá fer ég. Málið verður í það minnsta ekki unnið í neinum leiðindum.

Ég bíð eftir viðbrögðum frá Löwen. Persónulega myndi ég vilja vita hvað verður sem fyrst en það er ekki svo gott. Það er mikið að gera hjá Löwen þar sem EHF hefur meinað Jesper að vera stjórnarformaður bæði Löwen og AGK þannig að það spilar eflaust inn í. Ég veit hreinlega ekki hvernig þetta mál mun fara," segir Guðjón sem ætlar að sýna mönnum að hann sé kominn í gott stand og sé enn sami leikmaðurinn og hann var þegar hann meiddist.

„Ég vil sýna að ég sé enn góður. Ég er enn fljótur og góður í handbolta. Ég þarf aftur á móti að fá að sýna það. Samningar margra vinstri hornamanna í bestu liðum heims renna út árið 2012. Ég er ekki að gera eins árs samning að óþörfu.

Það verður hreyfing á markaðnum á mönnum í minni stöðu sumarið 2012 og ég vil því halda mínum málum opnum þó svo að það geti vel verið að ég verði á sama stað. Þá renna út samningar hjá mönnum í Kiel, Hamburg, Barcelona og Ciudad Real. Hvort ég eigi möguleika á að fara í þessi lið verður svo að koma í ljós. Ég vil í það minnsta halda mínum möguleikum opnum," segir Guðjón, sem hefur mátt sætta sig við það að vera oft utan hóps hjá Löwen eftir áramót.

„Ég er farinn að geta æft hrikalega vel núna. Ég gat spilað á HM og var langt frá því í eins góðu formi þá og núna. Ég komst samt ansi vel frá því móti. Ég er í enn betra standi núna og nú þarf ég að fá að spila. Ég þarf að sýna fólki að ég standist álagið í marga mánuði eftir að hafa verið frá í tíu mánuði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×