Handbolti

Füchse Berlin með fullt hús - vann Björgvin og félaga í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson er lykilmaður hjá Füchse Berlin.
Alexander Petersson er lykilmaður hjá Füchse Berlin. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Dagur Sigurðsson og félagar hans í Füchse Berlin byrja vel í þýsku úrvalsdeildinni en liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína og er á toppnum eins og er. Füchse Berlin vann 29-27 útisigur á Magdeburg í gær en báðir leikir liðsins hafa unnist á útivelli.

Alexander Petersson átti fínan leik og var næstmarkahæstur í liði Füchse Berlin með 6 mörk. Sven-Sören Christophersen skoraði mest í liðinu eða sjö mörk. Füchse vann 16-15 yfir í hálfleik.

Björgvin Páll Gústavsson spilaði fyrstu tíu mínúturnar og síðustu tíu mínúturnar í leiknum en hann varði 4 af 15 skotum sem komu á hann á þessum tíma. Björgvin varði tvö skot frá Alexander sem skoraði jafnframt tvisvar hjá honum.

Magdeburg vann fyrsta leikinn sinn í deildinni á móti Göppingen um helgina en Björgvin Páll kom þá inn á og varði vítakast á mikilvægum tímapunkti í lokin. Füchse vann þá 31-28 útisigur á Hannover-Burgdorf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×