Innlent

Veit ekkert hvað gerist á morgun

„Það skiptir mig miklu meira máli að ganga vel með tónlistina mína hérna heima en úti í löndum. Hér finn ég fyrir því að margir eru stoltir af mér og það er allt önnur tilfinning,“ segir Þórunn Antonía, sem vinnur nú að plötu í samstarfi við Davíð Berndsen. Mynd/Valgarður
„Það skiptir mig miklu meira máli að ganga vel með tónlistina mína hérna heima en úti í löndum. Hér finn ég fyrir því að margir eru stoltir af mér og það er allt önnur tilfinning,“ segir Þórunn Antonía, sem vinnur nú að plötu í samstarfi við Davíð Berndsen. Mynd/Valgarður
Allt við þessa þætti hefur verið ævintýri líkast og viðtökurnar hafa verið ótrúlegar,“ segir Þórunn Antonía Magnúsdóttir þegar hún tyllir sér niður með blaðamanni á kaffihúsi steinsnar frá heimili hennar í austurborginni. Vikunni eyddi Þórunn mestmegnis við vinnslu lokaþáttar annarrar seríu gamanþáttaraðarinnar Steindans okkar sem sýnd er á Stöð 2, en á þeim vettvangi bregður Þórunn sér í allra kvikinda líki ef svo má segja. Fyrir utan að leika og syngja hefur hún frá upphafi hoppað inn í flest þau störf sem inna þarf af hendi til að slík dagskrárgerð geti orðið að veruleika.

 

„Þetta vatt bara upp á sig,“ útskýrir Þórunn. „Fyrst voru Steindi Jr. og Ágúst Bent [leikstjóri og kærasti Þórunnar] með örstutta þætti á Skjá Einum og þá þurfti ég vera ljósamaður, halda á hljóðnemanum og fleira. Svo þegar þurfti að breyta Steinda í Kiefer Sutherland fór ég að taka þátt í förðun og gervum og svo var ég bara plötuð í öll kvenhlutverkin líka,“ segir hún og bætir við að þótt fjölgað hafi í starfsliðinu með tímanum séu þættirnir ennþá hálfgert fjölskylduverkefni, þar sem flestir aukaleikararnir séu annað hvort skyldir eða ævagamlir vinir.

 

Þórunn segist ekki víla fyrir sér að ganga í öll nauðsynleg störf í hverju verkefni fyrir sig. „Mér finnst þetta ekkert tiltökumál, enda er andinn alltaf góður á tökustað. Miðvikudagurinn var til dæmis mjög fyndinn dagur, því þá þurfti ég að hjóla í rigningunni á allar bensínstöðvar í bænum í leit að ákveðinni tegund af trekt. Ég er ekki með bílpróf, því ég flutti til London átján ára og þar keyrir enginn heldur labbar fólk eða tekur strætó og lestir. Ég ætla að taka bílprófið einn góðan veðurdag því ég er viss um að ég verði frábær bílstjóri. En þangað til finnst mér bara gaman að hjóla út um allt.“

Lofar almennum hressleikaÞótt Þórunn Antonía hafi þvælst fyrir hálfgerða tilviljun inn í dagskrárgerð fyrir sjónvarp verður eitthvert framhald á enn um sinn. Í haust hefur göngu sína á föstudagskvöldum á Stöð 2, þar sem Auddi og Sveppi hafa ráðið ríkjum síðustu ár, nýr þáttur sem Þórunn sér um ásamt Birni Braga Arnarssyni.

 

Aðspurð segir Þórunn að þátturinn, sem hefur ekki enn hlotið nafn, verði almennur skemmtiþáttur og þessa dagana vinni þau Björn Bragi að beinagrind. „Þetta er eins og með fyrstu fjóra mánuði meðgöngu. Við viljum ekki segja of mikið og leggja álög á þáttinn. Sveppi og Auddi hafa staðið sig frábærlega, en við viljum fara í aðrar áttir. Við lofum þó miklum skemmtilegheitum og almennum hressleika með músík, gríni og fleiru. Ég þekki Björn Braga vel, hann er mjög fyndinn og syngur líka eins og engill, og hver veit nema við smellum í einn dúett í þættinum.“

Flutti til London átján áraÞórunn Antonía býr yfir mikilli reynslu í skemmtanabransanum þrátt fyrir ungan aldur. Hún ólst upp úti á Granda og eftir að hafa klárað sína dæmigerðu unglingauppreisn, eins og hún orðar það, gaf hún út sína fyrstu sólóplötu aðeins sautján ára gömul árið 2002. Plötuna, Those Little Things, gerði Þórunn í samvinnu við föður sinn, tónlistarmanninn Magnús Þór Sigmundsson. Áður hafði hún lært heilmikið um tónlistarsköpun og -iðnaðinn af föður sínum, eytt löngum stundum í hljóðverum og meðal annars sungið með íslensku hipphoppsveitinni The Faculty inn á plötu.

 

Eins og áður sagði fluttist söngkonan svo til London á eigin vegum einungis átján ára gömul, „hæfilega kærulaus og staðráðin í að láta að mér kveða,“ eins og hún segir. Hlutirnir gerast hratt í heimsborginni og áður en hún vissi af voru liðin heil sjö ár.

 

Í millitíðinni hafði Þórunn sungið með hljómsveitunum The Honeymoon, Fields og Thenewno2, sem allar náðu töluverðum árangri. Forsprakki síðastnefndu sveitarinnar er Dhani Harrison, sonur Bítilsins George heitins, og syngur Þórunn enn með sveitinni af og til þegar mikið liggur við. Einnig var hún um hríð bakraddasöngkona hjá hinum vinsælu dönsku stuðboltum í Junior Senior og kom meðal annars fram með sveitinni í tveimur af helstu tónlistarþáttum Bretlands á þeim tíma, Top of the Pops og Later with Jools Holland.

 

Þórunn minnist þessara ára með hlýju. Þá vann hún einnig með sænskættaða tónlistargúrúinum Beck og segir það hafa verið frábæra upplifun.

 

„Auðvitað var þetta stórkostlegt. Ég fékk að ferðast um allan heim, syngja á öllum helstu stöðunum og tónleikahátíðunum eins og Glastonbury, Reading, Coachella og Hróarskeldu, svo dæmi séu tekin. Ég hef ákveðið að bíða með að skrifa ævisöguna fram til fimmtugs, en ég á sko til sögur. Það get ég sagt þér,“ segir hún og hlær.

Amy Winehouse vond með víniMeð því eftirminnilegra en jafnframt ógeðfelldara sem Þórunn Antonía tók sér fyrir hendur meðan á dvöl hennar í útlöndum stóð var að starfa fyrir umboðsmann bresku hljómsveitarinnar Babyshambles. Söngvari þeirrar sveitar, Pete Doherty, er víðfrægur fyrir allt annað en heilsusamlegt líferni og fágaða framkomu.

 

„Mér bauðst þessi vinna í millibilsástandi og tók henni, en sá eiginlega strax eftir því,“ rifjar Þórunn upp. „Þetta var ógeðslegt. Pete Doherty var eins og lítið, sturlað barn. Reykjandi krakk fyrir framan mig og ég veit ekki hvað, sem mér finnst ekki töff og kúl. Í fyrsta skipti sem ég hitti hann var hann að væflast um heima hjá umboðsmanninum, ber að ofan og blindfullur með viskíflösku. Ég var að tala í símann og hann hrifsaði símann af mér og hljóp út. Vinur minn hljóp á eftir honum og skipaði honum að skila símanum, en þá tók hann gítarinn sinn og smallaði honum á fínu eikarborði. Þá var mér nóg boðið. Ég húðskammaði hann bara og sagði honum að láta ekki eins og smákrakki, rétti honum sóp og hann baðst afsökunar og byrjaði að sópa. Ég hætti í þessari vinnu skömmu síðar,“ segir Þórunn og bætir við að hún hafi einnig haft persónuleg kynni af öðrum frægum fíkli, söngkonunni Amy Winehouse, um svipað leyti.

 

„Ég þekkti Amy áður en hún varð fræg og hún var yndisleg stelpa en hrútleiðinleg með víni. Þegar fólk nær ákveðnum frægðarstalli eru bara hýenur í kringum það og engir vinir. Breska pressan elskar dópista og hvetur þá til dáða til þess eins að geta rifið þá niður.“

Ný plata með Berndsen í haustHún viðurkennir þó að London get verið grá borg og þung. Þegar Þórunn flutti heim fyrir rúmum tveimur árum var kominn leiði í hana, sem endurspeglaðist líka í tónlistarsköpuninni.

 

„Lögin sem ég samdi á þessum tíma voru dálítið þunglyndisleg, sem passar illa við minn persónuleika. Svo hafði ég varla tíma til að sinna tónlistinni að ráði þangað til ég hitti tónlistarmanninn og upptökustjórann Davíð Berndsen, sem er snillingur,“ segir Þórunn, en hún og Berndsen, eins og hann kallar sig opinberlega, hafa síðustu mánuði unnið saman að nýrri plötu sem kemur út í haust. Þegar hafa tvö lög af plötunni, For Your Love og Out of Touch, heyrst í útvarpi og notið vinsælda.

 

„Þetta samstarf okkar er rosalega skemmtilegt. Vinkona mín lýsti lögunum sem samblandi af Stevie Nicks úr Fleetwood Mac og Kylie Minogue, sem mér finnst frábær samlíking. Það skiptir mig miklu meira máli að ganga vel með tónlistina mína hérna heima en úti í löndum. Hér finn ég fyrir því að margir eru stoltir af mér og það er allt önnur tilfinning.“

 

Spurð hvort „útlandameikið“ sé búið segir Þórunn svo ekki endilega vera. „Ég held öllu opnu. Líf mitt hefur verið óútreiknanlegt hingað til og verður þannig áfram. Mér líður vel á Íslandi núna og veit ekkert hvað gerist á morgun.“

Varð bálskotin í BentÞórunn kynntist unnusta sínum, leikstjóranum Ágústi Bent, skömmu eftir að hún flutti til Íslands frá London, en hann hafði gert það gott sem rappari í Rottweilerhundunum. Hún segist kunna vel við að starfa svo náið með Bent á hverjum degi.

 

„Ég missti af Rottweiler-æðinu en vissi samt hverjir þeir voru. Við Bent hittumst fyrst á rólóvelli í Árbænum þegar ég var þrettán ára. Ég man reyndar ekkert eftir því, en finnst voðalega sætt að hann skuli muna eftir því,“ segir Þórunn og hlær.

 

„Svo þegar við hittumst aftur varð ég alveg bálskotin í honum. Ég er rosalega stolt og ánægð með hann. Hann er töffari á yfirborðinu, en undir niðri leynist nörd og snillingur,“ segir Þórunn Antonía að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×