Innlent

Lögreglumanni sem grunaður er um barnaníð ekki vikið frá störfum

Lögreglumenn. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Lögreglumenn. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Ríkislögreglustjóri telur sig ekki hafa forsendur til að víkja lögreglumanni tímabundið frá störfum þó fyrir liggi að hann er til rannsóknar vegna meintra kynferðisbrota gegn stúlkubarni. Þetta er annað málið á einu ári þar sem lögreglumaður er kærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku undir lögaldri.

Fréttastofa greindi frá því í liðinni viku að starfandi lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kærður fyrir kynferðislega áreitni í garð tíu ára stúlku. Meint brot áttu sér stað fyrir fjórum árum.

Ríkislögreglustjóri óskaði því eftir því við ríkissaksóknara að fá aðgang að rannsóknargögnum málsins til að meta hvort forsendur eru til að víkja manninum tímabundið úr starfi.

Þeirri beiðni var hafnað á grundvelli þagnarskyldu, og ennfremur bent á að ef gefin verður út ákæra séu yfirgnæfandi líkur á að þinghald verði lokað og hendur ákæruvaldsins að því leyti bundnar varðandi afhendingu gagna.

Á síðasta ári var lögreglumaður á Norðvesturlandi kærður fyrir kynferðisbrot gegn fimmtán ára stúlku. Honum var vikið frá störfum þegar ríkissaksóknari gaf út ákæru.

Ríkislögreglustjóri hefur vegna alvarleika þess máls sem nú er komið upp beint því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að meta hvort hann leysi lögreglumanninn undan vinnuskyldu. Þær upplýsingar fengust hjá lögreglustjóranum að hann teldi sér heldur ekki heimilt að víkja manninum frá störfum, og vísaði alfarið á ríkislögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×