Veiði

Bleikjan orðin fáliðuð í Elliðavatni

Trausti Hafliðason skrifar
Þessi þriggja punda urrði, sem veiddist í Elliðavatni í síðustu viku, mældist 47 sentímetrar.
Þessi þriggja punda urrði, sem veiddist í Elliðavatni í síðustu viku, mældist 47 sentímetrar.
Fyrir rúmum tuttugu árum var svipað hlutfall af bleikju og urriða í Elliðavatni en nú hefur það breyst. Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, segir margt benda til þess að nú á seinni árum sé bleikjan orðin ansi fáliðuð í vatninu. Tilraunaveiðar undanfarinna ára sýni að hlutfall bleikju í vatninu sé tæplega 10 prósent og urriða um 90 prósent.

Guðni segir að á þessu kunni að vera nokkrar skýringar þó telji menn nú að helsta skýringin sé svokölluð PKD-sýki en það er nýrnasjúkdómur sem smærri bleikja er mjög viðkvæm fyrir en urriðinn ekki eins. Hann segir að smittíðni bleikjunnar haldist í hendur við hlýnun vatnsins en sníkjudýrið sem veldur sýkingunni þrífst best í hlýju vatni. Guðni bendir samt á að þó veiðimenn veiði sýkta bleikju þurfi þeir ekki að hafa áhyggjur af því leggja hana sér til munns því hún sé áfram hinn besti matfiskur. Sníkjudýrið, sem er einfrumungur, hafi bara áhrif á fiskinn og sé allsendis skaðlaust fólki.

Vanir veiðimenn í Elliðavatni hafa komið með þá kenningu að vatnið sé að breytast í stórfiskavatn og vilja meina að töluvert meira veiðist af stórum urriða en áður fyrr. Guðni segir að þó Veiðimálastofnun hafi stundað tilraunaveiðar í Elliðavatni frá árinu 1987 og þær sýni ekki fram á að urriðinn sé að stækka, vilji hann ekki útiloka neitt í þessum efnum. Tilraunaveiðarnar fari fram á afmörkuðum svæðum og hlutfallslega fáir fiskar séu á bak við meðal¬tölin. Þróunin geti því vel verið sú að urriðinn sé að stækka. Það þurfi hins vegar frekar gögn til þess að staðfesta kenninguna.

„Við fáum mjög stopult af veiðiskýrslum úr Elliðavatni og því þarf veiðifélagið að koma í betra horf því upplýsingarnar sem þessar skýrslur gefa okkur eru gríðarlega mikilvægar," segir Guðni.

Röng mynd af stofnstærð

Jón Kristjánsson fiskifræðingur, sem heldur úti vefsíðunni fiski.com, telur að staðlaðar tilraunaveiðar Veiðimálastofnunar gefi ranga mynd af stofnstærð bleikju og urriða í Elliðavatni. Stærri fiskur og kynþroska fiskur virðist vanmetinn og hlutfall tegundanna sennilega skakkt.

Á vefsíðunni segir Jón að tilraunaveiðarnar fari fram eftir að bleikja sé farin að torfa sig og ganga á rið. Netin séu lögð á dæmigerðum búsvæðum urriða en útbreiðsla tegundanna sé mjög háð dýpi og botngerð.

Jón telur nýrnaveikina ekki fullnægjandi skýringu á fækkun bleikjunnar. Hlutfallsleg fækkun hennar geti allt eins stafað af því að urriðinn hafi sótt í sig veðrið og stofninn stækkað vegna breytingar á samkeppnisaðstöðu. Þá telur Jón að bleikjan geti einnig hafa átt erfitt uppdráttar vegna lítils vatnsmagns í Elliðavatni sem rekja megi til stíflunnar en riðstöðvar bleikjunnar séu oft á litlu dýpi eða 10 til 50 sentimetra dýpi.

Samkvæmt mælingum Jóns frá árinu 2002 var bleikjustofninn um 9.000 fiskar en urriðastofninn um 25.000, samkvæmt því var hlutfall bleikju um 25 prósent í vatninu. Jón bendir á að skekkjumörkin í urriðamælingunum séu mikil.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.