Innlent

MR besti framhaldsskóli landsins

Menntaskólinn í Reykjavík er besti framhaldsskóli landsins ef marka má úttekt stærðfræðings sem byggði á sautján gæðavísum. Úttektin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Það var stærðfræðingurinn og stjórnlagaráðsfulltrúinn Pawel Bartoszek sem gerði úttektina fyrir tímaritið Frjálsa verzlun, en hann vonast til að matið geti hjálpað grunnskólanemum við að velja sér framhaldsskóla og gefið vísbendingu um styrkleika og sóknartækifæri menntakerfisins.

Matið er byggt á árangri skólanna í 17 flokkum, til dæmis menntun kennara, aðsókn í skólann, árangri í raungreina- og tungumálakeppnum, Gettu betur og ræðukeppni framhaldsskólanna svo eitthvað sé nefnt. Skólarnir fá svo stig á bilinu núll til hundrað í hverjum flokki, og þannig fæst mat á stöðu skólanna innbyrðis.

Og þegar allt er talið saman, þá er það Menntaskólinn í Reykjavík, sem skorar hæst.

Í öðru sæti er Menntaskólinn við Hamrahlíð, og í því þriðja er Verzlunarskóli Íslands. Sá skóli sem verst kemur út er Verkmenntaskóli Austurlands.

Skólastjórar bestu skólanna segjast þó óvissir um að könnunin sýni raunverulega fram á gæði menntunar, og Pawel segir ekkert óeðlilegt við að taka niðurstöðunum með fyrirvara, enda mæli þær skýrt afmarkaða þætti. Þá geti verið að sterkir nemendur veljist í bestu skólana, og það hafi áhrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×