Handbolti

Sárt tap á heimavelli hjá Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson.
Róbert Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson. Nordic Photos / Bongarts
Rhein-Neckar Löwen er í slæmri stöðu í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir tap á heimavelli fyrir Montpellier í dag, 29-27.

Þetta var fyrri leikur liðanna í fjórðungsúrslitunum en síðari leikur liðanna fer fram í Frakklandi um næstu helgi.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en í stöðunni 8-6 fyrir Montpellier skoraði Löwen fimm mörk í röð og tók völdin í leiknum. Staðan í hálfleik var 12-9, Löwen í vil.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar héldu uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks og skoraði Róbert Gunnarsson snemma tvö mörk í röð og kom sínum mönnum í 16-11 forystu.

Þá komu fjögur mörk í röð frá Montpellier sem náði svo fljótlega yfirhöndinni í leiknum. Forysta þeirra frönsku var mest fjögur mörk en Löwen skoraði síðustu tvö mörk leiksins og náði að laga stöðuna aðeins.

Leikmenn Löwen spiluðu illa í síðari hálfleik og misstu öll tök á leiknum. Markvarslan var lítil sem engin og sóknarleikurinn slakur.

Róbert og Ólafur Stefánsson spiluðu mikið fyrir Löwen í dag en Guðjón Valur Sigurðsson kom ekkert við sögu. Róbert skoraði þrjú mörk en Ólafur ekkert þó svo að hann hafi lagt upp mörg mörk fyrir félaga sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×