Körfubolti

Ingibjörg: Kom í Keflavík til að vinna titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Ingibjörg Jakobsdóttir, kom til Keflavíkur fyrir tímabilið og varð Íslands-, bikar- og fyrirtækjameistari á sínu fyrsta tímabili. Hún hafði orðið bikarmeistari með Grindavík á sínum tíma en varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn á ferlinum í Toyota-höllinni í gærkvöldi.

„Þetta er ólýsanleg tilfinning. Þetta er bara geðveikt. Ég lagði upp með þetta þegar ég ákvað að fara í Keflavík og ég var ekki að skipta útaf engu. Þetta var það sem mig langaði að gera, hér eru fullt af góðum stelpum og mig langaði að vinna titilinn. Nú er hann kominn," sagði Ingibjörg sem átti góðan leik í 61-51 sigri á Njarðvík í gær og skoraði alls 14 stig í leiknum þar af sex þeirra á fyrstu þremur mínútunum.

„Ég ætlaði að vinna þennan leik og það kom ekkert annað til greina. Þetta er sterkt lið hjá Njarðvík en við komum bara tilbúnar og það skiptir ekki með hversu mörgum stigum maður vinnur ef maður bara vinnur leikina," sagði Ingibjörg sem sagði að það hefði ekki verið nein aukapressa á liðinu víst að Íslandsbikarinn var mættur í húsið.

„Nei, nei. Við vorum ekki búnar að vinna neitt fyrir leikinn og það var því engu að tapa," sagði Ingibjörg en hvað gerist á næsta tímabili: „Við sjáum bara til," sagði Ingibjörg og brosti en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.


 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.