Handbolti

Guðlaugur: Menn farnir að hugsa um helgina

Elvar Geir Magnússon í Kaplakrika skrifar
„Þetta gekk ekki. Við áttum einfaldlega mjög dapran seinni hálfleik,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, leikmaður Akureyrar, eftir að liðið tapaði fyrir FH í Kaplakrikanum í kvöld. Þetta var í þriðja sinn á rúmri viku sem liðin mætast en Akureyri vann hina tvo leikina.

„Við vorum ekki nægilega ákveðnir í okkar aðgerðum og þeir mættu bara tilbúnari en við. Þetta eru áþekk handboltalið en það lið vinnur sem mætur betur tilbúið inn á völlinn. Það vorum við í hinum tveimur leikjunum fyrir norðan en ekki í kvöld.“

Akureyri á bikarúrslitaleik framundan gegn Val um næstu helgi og viðurkennir Guðlaugur að menn gætu verið komnir með hugann við hann. „Eflaust eru menn farnir að hugsa til hans en ég ætla ekkert að fela mig bak við það í þessum leik. Þetta eru samt tvö aðskilin mót og menn eiga bara að klára deildina,“ sagði Guðlaugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×