Handbolti

Frábær sigur hjá Björgvini Páli og félögum á toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Björgvin Páll Gústavsson og félagar í Kadetten Schaffhausen unnu mikilvægan og flottan sigur á rússneska liðinu Chekovski Medvedi, 32-29, í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Rússarnir voru einu marki yfir í hálfleik, 16-15.

Svissneska liðið er í mikilli baráttu um að komast í sextán liða úrslit keppninnar og með þessum sigri steig liðið stórt skref í átt að því að komast þangað. Þetta var annar sigur liðsins í röð í keppninni en liðið vann ungverska liðið SC Szeged í leiknum á undan.

Medvedi er í efsta sæti C-riðils en Schaffhausen komst upp fyrir SC Szeged og í 3. sætið með þessum sigri. Fjögur efstu liðin komast áfram í 16-liða úrslitin. Schaffhausen hefur nú eins stigs forystu á SC Szeged (4. sæti) og fjögurra stiga forystu á Dinamo Minsk (5. sæti) en þau eiga bæði leiki inni um næstu helgi. Dinamo Minsk mætir þá Álaborg en Szeged spilar við BM Valladolid.

Schaffhausen mætir síðan Valladolid á útivelli í lokaumferðinni á sama tíma og Dinamo Minsk spilar við Chekovski Medvedi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×