Innlent

Íhuga að taka sýni úr neysluvatni

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur fengið staðfestingu á því að verktaki hafi látið seyruvökva úr rotþróm leka á vatnsverndarsvæði á Þingvöllum. Sumarhúsaeigandi fer fram á að verktakanum verið vikið frá verkinu.

Fréttastofa greindi frá því í gær að Holræsa- og stífluþjónusta Suðurlands, sem sér um að tæma rotþrær á Þingvallasvæðinu, hefði lekið seyruvökva úr rotþrónum út á vatnsverndarsvæði svo neysluvatni stafi hugsanleg hætta af.

„Á þessu svæði gerir maður ekki svona"

Sumarhúsaeigandi sem varð vitni að athæfinu sendi heilbrigðiseftirliti Suðurlands afar harðort erindi þar sem hann gagnrýndi vinnubrögðin og sagði þau bæði gróf og viðurstyggileg. Hann fer fram á að Heilbrigðiseftirlitið grípi til aðgerða. Eftirlitið hefur fengið frásögn mannsins staðfesta hjá eiganda Stífluþjónustunnar.

„Þeir segjast ekki hafa vitað að það mæti ekki losna þarna sem er út í hött," segir Birgir Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi á mengunarsviði heilbrigðiseftirlits Suðurlands „Ég held að flestum ætti að vera ljóst að á þessu svæði gerir maður ekki svona."

Sumarhúsaeigandinn segir í erindi sínu til eftirlitsins að hann hafi náð tali af fulltrúa fyrirtækisins, en sá hafi einnig borið við þekkingarleysi og haldið því fram að um hreinsaðan vökva væri að ræða. Hann fer fram á að verktakanum verði vikið frá verkinu.

Kanna hvort taka eigi sýni úr neysluvatni

Birgir segir að það verði að koma í ljós hvort fyrirtækinu sé treystandi til að starfa áfram á þessum vettvangi. „Við ræðum við eigandann á morgun og athugum hvað kemur út úr því."

Þá muni heilbrigðiseftirlitið einnig kanna hvort ástæða sé til að taka sýni úr neysluvatni.

Hörður Ingvarsson, forsvarsmaður Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands, hefur ekki svarað ítrekuðum tilraunum fréttastofu til að ná af honum tali síðan í gær.


Tengdar fréttir

Neysluvatni stefnt í hættu

Grunur leikur á að seyruvökvi úr rotþróm hafi verið látinn leka út í umhverfið á vatnsverndarsvæði á Þingvöllum. Heilbrigðisfulltrúi segir neysluvatni hætta búin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×