Viðskipti innlent

Gjaldþrot Seðlabankans kostaði hálfa milljón á mann

Heildarkostnaður ríkissjóðs af tæknilegu gjaldiþroti Seðlabankans og endurreisn gömlu bankanna nemur samtals 371 milljarði króna.

Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans nemur 175 milljörðum króna. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra á alþingi við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þingmanns Samfylkingarinnar um kostnað vegna bankahrunsins fyrir ríkissjóð. Sé þeirri upphæð deilt jafnt yfir landsmenn er kostnaðurinn rúmlega 550.000 krónur á hvern Íslending eða 2,2 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna eiginfjárframlags ríkisins og víkjandi lána til Arion banka, Íslandsbanka og Nýja Landsbankans er samtals 196 milljarðar króna. Sé þeirri upphæð dreift jafnt yfir landsmenn nemur kostnaðurinn 617 þúsund krónum á hvern Íslending.

Fram kemur í svari ráðherra hvað Seðlabankann varðar að bankinn framseldi kröfur, aðallega svokölluð ástarbréf gömlu bankanna, upp á 345 milljarða króna til ríkissjóðs en fékk í staðinn 270 milljarða króna sem verðtryggt ríkisskuldabréf. Gert var ráð fyrir að 95 milljarðar myndu innheimtast af kröfunum. Ríkissjóður hefur nú framselt Seðlabankanum kröfurnar til baka gegn lækkun skuldabréfsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×