Innlent

Forseti hefur rætt við forystumenn stjórnarflokkanna

Heimir Már Pétursson skrifar

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands fundaði í gær með Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í sitt hvoru lagi vegna Icesave laganna.

Ekkert hefur verið gefið upp um hvað forsetanum og ráðherrunum fór á milli en telja má víst að þar hafi flokksleiðtogar stjórnarflokkanna m.a. gert forseta grein fyrir hvernig ríkisstjórnin muni bregðast við, synji forseti því að staðfesta lögin.

Opinber heimsókn forsetans til Indlands hefst hinn 12. janúar í næstu viku og stendur til 16. janúar, en þar mun hann m.a. taka við Nehruverðlaununum sem ákveðið var að veita honum á síðasta ári. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar fór Dorrit forsetafrú af landi brott í gær í einkaerindum. Samkvæmt sömu heimildum mun forsetinn ætla að hitta hana í útlöndum á miðvikudag, áður en þau halda í hina opinberu heimsókn.

Ef það er rétt að forsetinn sé á leið úr landi er líklegt að hann muni ákveða sig í Icesavemálinu áður en hann fer og þá væntanlega í síðasta lagi á morgun. Ekkert segir um það í stjórnarskrá hvort forsetinn þurfi að staðfesta eða synja lögum staðfestingar innan tiltekins frests. Aðeins að afhenda beri honum samþykkt lög frá Alþingi innan tveggja vikna frá því Alþingi afgreiðir þau.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hefur forsetinn ekki rætt við forystufólk stjórnarandstöðuflokkanna frá því hann fékk Icesave lögin í hendur. Helstu aðstoðarmenn forsetans á skrifstofu hans sitja þessa stundina á fundi og ekkert hefur verið gefið upp um það hvort búast megi við ákvörðun hans í dag eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×