Viðskipti erlent

Óttinn við gjaldþrot Grikklands, Portúgals og Spánar í hámarki

Skuldatryggingaálagið á Grikkland fór í 865 punkta í morgun sem er hækkun um 42 punkta frá því í gær.
Skuldatryggingaálagið á Grikkland fór í 865 punkta í morgun sem er hækkun um 42 punkta frá því í gær.
Samkvæmt mælingum gagnaveitunnar CMA hefur óttinn við þjóðargjaldþrot Grikklands, Portúgals og Spánar aldrei verið meiri meðal fjárfesta. Skuldatryggingaálag þessarar þjóða hefur aldrei verið hærra en það er í dag.

 

Skuldatryggingaálagið á Grikkland fór í 865 punkta í morgun sem er hækkun um 42 punkta frá því í gær. Álagið á Portúgal er 406 punktar og því orðið hærra en álagið á Ísland. Álagið á Spán stendur nú í 211 punktum.

 

Staða Grikklands fer nú hríðversnandi með hverjum deginum og reyna þarlenda stjórnvöld hvað þau geta til að bregðast við ástandinu. Í gærdag var sett bann á alla skortsölu á hlutabréfamarkaðinum í Aþenu en hlutabréf þar, einkum bankanna, hafa verið í frjálsu falli þessa vikuna. Bannið á að standa fram til loka júní í ár.

Matsfyrirtækið Standard & Poors hefur sett lánshæfiseinkunn Grikklands í ruslflokk. Þetta hefur m.a. haft það í för með sér að vextir á 2ja ára ríkisskuldabréfum landsins ruku upp í 24% í morgun.

 

Þá hafa verið fréttir í erlendum fjölmiðlum í morgun um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) ætli að bjóða Grikkjum meiri fjárhagsaðstoð en þá 15 milljarða evra sem rætt hefur verið um að AGS leggi landinu til.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×