Innlent

Sýking í tattúinu: „Reykjavík er þung byrði að bera“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Húðflúrið hans Jóns Gnarr er sannarlega komið í sögubækurnar
Húðflúrið hans Jóns Gnarr er sannarlega komið í sögubækurnar
„Hann fékk sýkingu í handlegginn og pensilín í æð," segir Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra. Sem kunnugt er fékk Jón Gnarr sér nýverið húðflúr með skjaldarmerki Reykjavíkur og virðist sýking hafa hlaupíð í húðflúrið. „Reykjavík er þung byrði að bera," segir Björn.

Jón var á ráðstefnunni European Green Capital í Stokkhólmi þegar sýkingin kom upp og var hann færður á sjúkrahús þar sem hlúð var að honum. „Hann er ekki við dauðans dyr," tekur Björn fram.

Þessa stundina er Jón á leið aftur til landsins með flugi en hann átti bókað flug í dag á almennu farrými. „Reykjavíkurborg kaupir ekki farmiða á fyrsta farrými," segir Björn til að halda því til haga að borgarstjórinn ferðast með almúganum.

Björn býst við að Jón setji inn fæslu á Facebook þegar líða tekur á kvöldið þar sem hann upplýsir borgarbúa um heilsufar sitt. Spurður hvort Jón geti það með sýkingu í handlegg svarar Björn: „Það er hægt að gera þetta með annarri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×