Viðskipti innlent

Bandaríkin tapa nýsköpunartitli sínum til Íslands

Bandaríkin hafa tapað titli sínum sem mesta nýsköpunarþjóð heimsins til Íslands. Samkvæmt árlegri skýrslu frá INSEAD og Samtökum iðnaðarins á Indlandi skaust Ísland úr 20. sæti listans yfir mestu nýsköpunarþjóðirnar og upp í efsta sætið í ár.

Í frétt um málið á vefsíðunni businessweek, sem rekin er af Bloomberg fréttaveitunni, segir að Bandaríkjamenn hafi mátt bíta í það súra epli núna að falla alla leið niður í 13. sæti listans.

Stærð skiptir máli í Global Innovation Index skýrslunni því yfirleitt er nýsköpun meiri meðal fjölmennari þjóða. Staða Íslands er athyglisverð í ljósi þess. Fjölmennasta þjóðin á top tíu listanum yfir mestu nýsköpunina er Svíþjóð með 9,2 milljónir íbúa. Svíar eru í öðru sætinu á listanum á eftir Íslandi.

Í skýrslunni núna eru 132 þjóðir metnar með tilliti til nýsköpunnar. Þar segir að þótt Ísland sé ekki hátt skrifað hvað varðar markaði og viðskipti sökum efnahagshrunsins 2008 er landið mjög framarlega á öðrum sviðum eins og til dæmis hvað notkun á netinu varðar.

Þá er það í fjórða sæti hvað varðar fjölda farsíma á íbúa og innviðir þjóðfélagsins eru taldir þeir bestu meðal allra þjóðanna 132 sem metnar eru.

Næstu þjóðir á eftir Íslandi og Svíþjóð á listanum eru Hong Kong, Sviss, Danmörk, Finnland, Singapore, Holland, Nýja Sjáland og Noregur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×