Innlent

Fullkomin óvissa um þingstörf á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alls óvíst er hvernig þingfundi vindur fram á morgun. Mynd/ Pjetur.
Alls óvíst er hvernig þingfundi vindur fram á morgun. Mynd/ Pjetur.
Fullkomin óvissa er um það hvernig þingstörfum verður háttað á morgun eftir að ný gögn frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya voru kynnt í fjárlaganefnd Alþingis í kvöld.

Guðbjartur Hannesson sagði á Alþingi í kvöld að gögnin snerust fyrst og fremst um Heretable bankann, sem var dótturfélag Landsbankans, og Kaupþing. Hann og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra töldu að fátt nýtt hefði komið fram í gögnunum.

Þessu voru þeir stjórnarandstöðuþingmenn, sem tjáðu sig í umræðunni, algjörlega ósammála og töldu framhald Icesave umræðunnar vera í algjörri upplausn. Ráðgert hafði verið að greiða atkvæði um Icesave frumvarpið í fyrramálið en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson krefst þess að atkvæðagreiðslunni verði frestað.

Stjórnarandstaðan túlkar gögnin frá Miscon de Reya um Heretable bank með þeim hætti að íslenska samninganefndin hefði getað nýtt sér þau til þess að ná fram hagstæðari samningum um Icesave. Þá spyrja þingmenn stjórnaranstöðunnar hvers vegna gögnin séu að koma fram núna. Þeir spyrja jafnframt hvort formaður samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, hafi einn haft aðgang að þessum upplýsingum eða hvort ráðherrar úr ríkisstjórninni hafi einnig haft aðgang að þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×