Fastir pennar

Með opnum huga

Jónína Michaelsdóttir skrifar
Nú þegar við erum orðin umsækjendur að Evrópusambandinu má spyrja sig hvort almenningur í landinu viti í raun hverju aðild að ESB muni breyta hér á landi. Myndast hafa fylkingar þvert á stjórnmálaflokka, annars vegar með og hins vegar á móti aðild.

Málflutningur þeirra er oftar en ekki í ætt við trúboð á hvorn veginn sem er, enda er hér ekki um dægurmál að ræða. Virtir sérfræðingar tjá sig í ræðu og riti og tæknin gerir nútímafólki kleift að finna á netinu upplýsingar um hvaðeina sem það vill vita um þessi samtök 27 Evrópuríkja, samninga þeirra og samstarf. Einhvern veginn finnst manni samt eins og hin almenna umræða um þetta mál sé enn eftir. Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér síðasta áratug, hvers vegna slík umræða hefur ekki farið fram hér á landi.

Með EES-samningnum kom fjórfrelsið, aðild að innri markaði ESB og þátttaka í áætlun sambandsins í menntun, vísindum og rannsóknum. Mörgum þykir þetta harla gott, og jafnvel of mikið. Öðrum þykir ótækt að við skulum ekki vera fullgildir aðilar að ESB, ekki síst út af gjaldmiðlinum. Gaman væri að geta skoðað og borið saman reynslu almennings nokkurra aðildarþjóða, með hvaða hugarfari og væntingum var gengið í ESB og hvort þessar væntingar hafa gengið eftir. Ef ekki, þá hvers vegna? Ef aðildin skilar meiru en gert var ráð fyrir, þá hverju? Hvað kom á óvart?

 

EFTA og EBEÁrið 1981 bauðst mér að fara í kynnisferð til EFTA í Genf og Efnahagsbandalags Evrópu í Brussel, með hópi frá Félagi íslenskra iðnrekenda. Það var ógleymanleg upplifun.

Á fundinum hjá EFTA var rætt um starfsemi stofnunarinnar, samkeppnisreglur, ríkisstyrki, samskipti við Ísland og um EFTA og EBE. Allt var þarna fágað og virðulegt, húsakynni falleg og mennirnir við stóra hringborðið viðfelldnir og kurteisir. Þegar spurt var hvort ekki væri áfall fyrir samtökin að missa Bretland og Danmörku yfir í EBE var brosað og sagt að í raun væri það ekki. Starfsandinn hefði eiginlega aldrei verið betri en eftir þessa breytingu og sambandið við EBE sömuleiðis.

Hjá EBE í Brussel var aftur á móti ekki töluð nein tæpitunga. Húsakynni voru eins og í venjulegri skólastofu, fyrirlesarar sátu við borðendann, komu beint að efninu og svöruðu umbúðalaust hverri spurningu. Þeir voru hver öðrum betri og manni fannst þetta hreinasta opinberun. Þetta var náttúrlega fyrir tíma netvæðingarinnar. Rætt var um samkeppni og ríkisstyrki, fiskveiðistefnu bandalagsins og stefnu þess í orkumálum, iðnaði og landbúnaði.

Þess utan var rætt um EBE, samband þess við Ísland og stefnuna í orkumálum, iðnaði og landbúnaði.

Inger Nielsen, sambland af Margréti Thatcher og Katrínu Hepburn, fræddi okkur um stækkun bandalagsins. Merkilegt var að heyra hana fara yfir samningaferli við hinar ýmsu þjóðir í Evrópu eftir umsóknir þeirra um aðild.

Hvernig hún kortlagði styrk þeirra og veikleika. Laurent van Depoele, sem var í forsvari fyrir fiskveiðistefnu bandalagsins, fór yfir þau mál og svaraði greiðlega öllum spurningum. Talaði undir lokin um samkomulag okkar við Norðmenn, sagði að Íslendingar hlytu að vera góðir samningamenn. Sjálfur skildi hann ekki hvernig við hefðum fengið í gegn bókun 6, um tollaívilnanir Íslendinga gagnvart EBE. Einhver í hópnum spurði hvort hann hefði ekki samþykkt slíkan samning. Svarið var stutt: Aldrei!

 

Ekkert er ókeypisÞetta er löngu liðin tíð. Efnahagsbandalaginu/Evrópubandalaginu var breytt í Evrópusambandið með Maastricht-samningnum 1992. Aðildarríkjum hefur fjölgað til muna og eru flest ríki sem við teljum okkur eiga mesta samleið með innan bandalagsins.

Það er því verðugt umhugsunarefni fyrir okkur hvað við kjósum þegar þar að kemur. Það er ekki nóg að einblína á það sem okkur hugnast verst og það sem telst eftirsóknarverðast. Við þurfum líka að ræða um allt þarna á milli. Æsingalaust. Vega það og meta, þegar allt liggur á borðinu. Við eigum að ganga upprétt til viðræðna, skoða hvað býðst og hvað það kostar. Ekkert er ókeypis.

Ef við erum að íhuga húsakaup sem breyta lífi fjölskyldunnar til frambúðar viljum við fá að skoða meira en framhlið hússins, stássstofuna og salernið áður en við tökum ákvörðun um kaupin. Annað hvort ákveðum við svo að þessi lífsgæði séu of dýru verði keypt, eða hið gagnstæða, að það margborgi sig. En við eigum að taka upplýsta ákvörðun. Með opnum augum og opnum huga.

 






×