Viðskipti innlent

Starfsemi ÍE á Íslandi tryggð, starfsmenn halda störfum sínum

Með tilboði því sem Saga Investments hefur lagt fram í Íslenska erfðagreiningu (ÍE) er starfsemi þess tryggð á Íslandi og munu starfsmenn félagsins halda störfum sínum.

Þetta kemur fram í minnisblaði um afleiðingar greiðslustöðvunnar deCODE í Bandaríkjunm og samninginn sem gerður hefur verið við Saga Investments um kaupin á ÍE.

Í minnisblaðinu segir að greiðslustöðvunin á ekki við um Íslenska erfðagreiningu ehf. sem heldur áfram starfsemi sinni með reglubundnum hætti meðan á greiðslustöðvunar- og uppboðsferlinu stendur.

Með tilboðinu sem lagt er fram til dómara ásamt beiðni um greiðslustöðvun er tryggt að starfsemin á Íslandi haldi áfram og að starfsmenn ÍE haldi störfum sínum.

Fjárfestarnir sem hafa lagt fram bindandi tilboð eru að setja inn nýtt fé í íslenska félagið og tryggja rekstur þess í a.m.k. tvö ár.

Fjárfestarnir koma með fleira að borðinu en eingöngu reiðufé, þ.s. um er að ræða mjög þekkta fjárfesta í líftæknigeiranum í Bandaríkjunum sem þekkja félagið vel.

Fjárfestarnir hafa unnið að gríðarlega umfangsmikilli kostgæfnisathugun á félaginu á síðustu vikum.

Sem viðbrögð við umsókninni mun NASDAQ væntanlega strax á morgun skrifa félaginu bréf um afskráningu en veitir 7 daga kærufrest sem þýðir þá að í a.m.k. 7 daga verða áfram viðskipti með bréfin á NASDAQ.

Sem ávallt til þessa mun stjórn Íslenskrar erfðagreiningar tryggja að í einu og öllu sé farið að lögum og reglum um meðferð og verndun hagsmuna þátttakenda í rannsóknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×