Handbolti

Lét ungu strákana spila í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. Mynd/Anton
"Vörnin var ekki nægilega sterk, markvarslan var léleg og við vorum að gera mikið af sóknarfeilum. Markvarslan og sóknarleikurinn þurfa að vera betri til að koma með góð úrslit á móti þýsku úrvalsdeildarliði," sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka eftir 34-21 tap fyrir Nordhorn í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Evrópukeppni bikarhafa.

"Við byrjuðum illa og lentum 4-1 undir. Svo komust við inn í leikinn og staðan var 6-5 og 10-7. Þeir ná þessu upp í sex mörk í lok fyrri hálfleiks sem var of stórt en við vorum ekki að spila nægjanlega vel. Mér fannst ef við gætum farið að spila okkar eðlilega leik þá ætti þetta ekki að vera svona mikill munur," sagði Aron um fyrri hálfleikinn en staðan var 18-12 í hálfleik fyrir Nordhorn.

"Við ætluðum að taka okkur taki í hálfleik en við byrjuðum seinni hálfleikinn skelfilega illa og gerðum fimm tæknifeila á þremur og hálfri mínútu. Þá ná þeir upp forskoti sem við náðum ekki að brúa. Við nýttum stóran hluta af seinni hálfleik til þess að láta unga leikmenn spila til að gefa þeim leiksreynslu í Evrópukeppni. Það var svona það sem var hægt að fá út úr leiknum," sagði Aron.

Seinni leikurinn er einnig spilaður í Þýskalandi en hann fer fram á sunnudaginn. "Við þurfum að sýna okkar rétta andlit og spila upp á heiðurinn og koma betur út úr leiknum á sunnudaginn. Við höfum verið að spila gríðarlega vel í deildinni undanfarið en við vorum langt frá því sem við höfum verið að sýna þar. Markmiðið er að reyna að vinna og ná í betri leik, sýna okkar rétta andlit og reyna að koma með sóma út úr þessu," sagði Aron að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×