Innlent

Skyttur í viðbragðsstöðu vegna ísbjarnargabbs

Ísbjörninn sem kom á Þverárfjall í byrjun júní í fyrra.
Ísbjörninn sem kom á Þverárfjall í byrjun júní í fyrra.
Hópur Akureyringa í skemmtiferð um Skagafjörð gabbaði fjölmiðla og lögreglu í dag með rangri tilkynningu um ísbjörn norðan við Hofsós. Eftir að frétt birtist um málið laust fyrir klukkan hálffjögur ræsti lögreglan á Sauðárkróki út mannskap og setti skyttur í viðbragðsstöðu. Um hálftíma síðar kom hið sanna í ljós.

Sigurður Guðmundsson, verslunarmaður á Akureyri, viðurkenndi í samtali við fréttastofuna að hafa staðið fyrir gabbinu ásamt um þrjátíu Akureyringum í skemmtiferð um Skagafjörð. Þetta hafi verið létt spaug á laugardegi.

Yfirlögregluþjóninum á Sauðárkróki, Stefáni Vagni Stefánssyni, var hins vegar ekki jafn skemmt. Hann segir lögregluna líta málið alvarlegum augum enda hafi lögreglumenn verið á leið á vettvang og búið að setja skyttur í viðbragðsstöðu þegar í ljós kom að um gabb var að ræða. Stefán segir að athæfi sem þetta geti varðað við lög og það verði skoðað hvernig brugðist verður við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×