Innlent

Rómantísk þjóðernisvitund mun fella Evrópusambandsaðild

Höskuldur Kári Schram skrifar

Rómantísk þjóðernisvitund gerir það að verkum að Íslendingar munu að óbreyttu aldrei samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Þetta segir Eiríkur Bergmann, dósent í stjórnmálafræði.

Í doktorsrannsókn sinni "Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar" skoðar Eiríkur Bergmann þá umræðu sem fram hefur farið hér á landi um tengsl Íslands við önnur lönd.

Að mati Eiríks endurspeglast í þeirri umræðu hugmyndir sem eiga ættir að rekja til sjálfstæðisbaráttunnar - íslendingar andspænis erlendum öflum sem ásælast auðlindir þjóðarinnar.

„Það sem kemur í ljós þegar maður fer í þessa orðræðugreiningu í rauninni þá blasir við sú mynd, sú hugmynd sem íslendingar hafa af sjálfum sér og um þjóðina og fullveldi hennar fellur einfaldlega illa að hugmyndinni um yfirþjóðlegt samstarf eins og á sér stað innan Evrópusambandsins," segir Eiríkur.

Þessar hugmyndir hafi einnig leitt til þess að Íslendingar öðluðust ofurtrú á eigin sérstöðu og ágæti.

„Þessar sérstöku hugmyndir sem íslendingar hafa um fullveldi og þjóðina hafa haldið henni til hlés í alþjóðlegu samstarfi af einhverju leyti. Í rauninni má nota sama grunn til þess að útskýra útrásina, hún var ekki þátttaka í alþjóðlegu samstarfi - heldur átti að sigra heiminn," segir Eiríkur og bætir við:

„Og svo þegar heimurinn hrynur yfir okkur á einu augabragði þá snýst þessi mynd við en hún á sér sama grunn, nú erum við orðin fyrir umsátri."

Eiríkur segir þessar hugmyndir gera það að verkum að það getur verið flókið fyrir íslendinga að samþykkja aðild að Evrópusambandinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×