Fastir pennar

Siðfræði Icesave-málsins

Stefán Ólafsson skrifar

Icesave málið er siðferðilegt ekki síður en efnahagslegt og lagalegt. Skoðum nokkur efnisatriði.

Stjórnendur Landsbankans reyndu að forða honum frá þroti með söfnun sparifjár á netinu frá almenningi í Bretlandi og Hollandi, eftir að fjármálamarkaðir lokuðust bankanum að öðru leyti. Hvers vegna er þessi iðja Íslandi viðkomandi?

Bankinn var íslenskur, með íslenskt starfsleyfi og bar nafn landsins. Bankinn var undir eftirliti íslenskra yfirvalda. Íslenskur tryggingasjóður átti að tryggja innstæðurnar að tilgreindu lágmarki. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað staðfest slíka ábyrgð. Með þessu veðsettu bankamennirnir íslensku þjóðina alla án þess að láta vita eða spyrja leyfis.

Samt segja sumir nú að íslenska þjóðin beri ekki ábyrgð á þessari skuld. Hvað þýðir það? Jú, með því er fullyrt að íslenskur banki hafi mátt raka að sér erlendu sparifé, undir fölsku flaggi. Innstæðutryggingakerfið íslenska hafi verið „í plati" gagnvart útlendingum en í fullu gildi fyrir Íslendinga, sem hafa nú þegar fengið innstæður sínar bættar. Forsendan er sú, að Landsbankinn hafi mátt ræna almenning í Bretlandi og Hollandi að vild, ef allt færi á versta veg.

Davíð Oddsson fullyrti þannig nýlega að Íslendingum bæri ekki að greiða þetta. Málið er honum skyldara en öðrum. Hann handvaldi Björgólfs-feðga til að kaupa bankann þó þeir væru ekki með hæsta tilboðið. Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og náinn samstarfsmaður Davíðs, Kjartan Gunnarsson, var varaformaður bankaráðsins þegar Icesave reikningarnir voru innleiddir og allt til hrunsins.

Davíð átti svo sjálfur að vernda fjárhagslegan stöðugleika þjóðarbúsins eftir að hann gerðist seðlabankastjóri, þar á meðal átti hann að vernda okkur gegn áhættunni af Icesave útrásinni. Þar brást hann algerlega. Flokkur hans fór með aðalstjórn efnahags- og fjármála allan tímann og hélt um alla þræði. Icesave málið er því sem næst einkamál Sjálfstæðisflokksins.

Svo segja menn að ábyrgð okkar hefði átt að útkljá fyrir dómstólum. Þar hefði málflutningur okkar þurft að vera sá, að innstæðutryggingakerfið á Íslandi hafi aðeins verið fyrir íslenska viðskiptavini Landsbankans en ekki þá erlendu. Halda menn að nokkur dómstóll hefði dæmt Íslandi í vil í slíku máli? Varla. Líklegra er að slík framganga hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð.

Loks segja sumir að forsætisráðherra eigi að taka málið beint upp við leiðtoga Bretlands og Hollands. Biðja eigi griða því þjóðin ráði ekki við ábyrgðina (þó útreikningar sýni annað). Útlendingarnir vita betur. Þeir munu réttilega segja: Íslendingar lifðu um efni fram á annarra þjóða fé og nú er komið að skuldadögum. Lífskjör Íslendinga verða um margt betri en lífskjör Breta þrátt fyrir þessar auknu byrðar.

Mér sýnist af öllum gögnum málsins og vel rökstuddum greinum Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar o.fl., að niðurstaðan sé skýr. Hártoganir um langsótta lagaklæki eða kvein um að við ráðum ekki við þetta koma okkur hvorki lönd né strönd. Það er því ekki viðeigandi að betla né hlaupa frá málinu. Í öllu falli er slíkt ekki tímabært. Við þurfum nú að sýna heiminum að við erum heiðarleg þjóð sem vill standa við skuldbindingar sínar.

Þeir sem vilja fella samninginn bjóða heldur ekki upp á neina vitræna lausn. Fullyrða einungis að hægt sé að fá betri samning, án þess að neitt bendi til þess. Þó var fyrri ríkisstjórn kominn áleiðis með verri samning sl. haust. Markmið stjórnarandstöðunnar er aðeins að skapa ríkisstjórninni erfiðleika og fella hana.

Það er tímabært fyrir þjóðina að komast á lappir aftur og nú eins og siðað fólk. Fórnarlömb Icesave útrásarinnar hafa boðist til að lána okkur fyrir skuldinni, að mörgu leyti á viðunandi kjörum. Endurskoðun er möguleg síðar, m.a. með eðlilegum fyrirvörum Alþingis.

Verkefnið við siðferðilega endurreisn Íslands er ekki síður viðamikið en björgun þjóðarinnar úr rústum „fjármálamiðstöðvarinnar", sem hönnuð var á grundvelli róttækrar frjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum. Gripdeildarsiðferðið sem af því spratt þarf að kveða niður.

Frágangur Icesave málsins snýst um að byggja á ný traust á Íslendingum. Það er gæfa við þessar erfiðu aðstæður að hafa fólk í forystu ríkisstjórnarinnar sem allir vita að er heiðarlegt og vinnur vel. Vonandi standa flokksmenn þeirra beggja við bakið á þeim alla leið.

Þeir sem bera hina eiginlegu sök á því hvernig komið er fyrir þjóðinni eiga hins vegar enn eftir að biðja afsökunar, svo ekki sé meira sagt.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.