Innlent

Vanhæfur til að gegna embætti sérstaks saksóknara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Magnússon hefur dregið umsókn sína til baka. Mynd/ Vilhelm.
Jón Magnússon hefur dregið umsókn sína til baka. Mynd/ Vilhelm.
Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður er vanhæfur til þess að gegna embætti sérstak saksóknara vegna bankahrunsins. Á vefsíðu sinni greinir Jón frá því að hann hafi fengið bréf frá dómsmálaráðuneytinu þar sem víasð er til umsagnar um umsækjendur embættanna. Þar komi fram að kannað hafi verið hvort umsækjendur hefðu tekið þátt í opinberri umræðu eða umfjöllun um þjóðfélagsmál síðastliðið ár með tilliti til þess hvort á einhvern hátt mætti draga óhlutdrægni viðkomandi sem saksóknara ef skipaður væri með réttu í efa.

„Einn umsækjenda Jón Magnússon heldur hins vegar úti heimasíðu á veraldarvefnum jonmagnusson.blog.is. Þar hefur Jón ítrekað tekið til umfjöllunar málefni tengd atburðunum í október 2008 er ríkið tók yfir stjórn viðskiptabankanna þriggja. Hann hefur greint frá skoðunum sínum bæði á mönnum og málefnum í þeim mæli að hætt er við að verulega myndi reyna á álitaefni um sérstakt hæfi hans sem saksóknara í tengslum við þau mál sem embættið hefur til meðferðar." segir í bréfinu.

Jón svaraði dómsmálaráðuneytinu og segir í svari sínu að dómsmálayfirvöld hafi ekki áhuga á að nýta sér starfskrafta sína, langa lögmannsreynslu og reynslu af starfsemi fjármálastofnana, en leiti að einstaklingi með þóknanlegri viðhorf. Af þeim ástæðum dragi hann umsókn sína til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×