Körfubolti

Ólöf Helga ætlar að hjálpa nýliðunum næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólöf Helga Pálsdóttir hefur spilað með Grindavík frá árinu 2000.
Ólöf Helga Pálsdóttir hefur spilað með Grindavík frá árinu 2000. Mynd/Stefán

Grindvíkingurinn Ólöf Helga Pálsdóttir hefur ákveðið að spila með nýliðum Njarðvíkur í Iceland Express deild kvenna á næsta tímabili. Ólöf Helga hefur spilað allan sinn körfuboltaferil í Grindavík og var meðal annars lykilmaður þegar liðið tryggði sér bikarmeistaratitilinn fyrir tveimur árum.

Ólöf Helga á að baki níu tímabil í úrvalsdeild kvenna þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gömul. Hún missti úr tímabili 2002-03 vegna hnémeiðsla.

Ólöf Helga hefur alls spilað 145 deildarleiki á þessum níu árum og er með 7,4 stig, 4,9 fráköst og 2,1 stoðsendingu að meðaltali í leik. Ólöf Helga skoraði 9,4 stig og tók 5,5 fráköst að meðaltali á síðasta tímabili

Njarðvíkurliðið vann sér sæti í Iceland Express deild kvenna síðasta vetur og spilar þar í fyrsta sinn síðan tímabilið 2004-05. Liðið er að mestu skipað mjög ungum leikmönnum með enga reynslu úr efstu deild.

„Ljóst er að Ólöf Helga kemur til með að styrkja lið okkar talsvert enda mjög fær leikmaður með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Ólöf Helga hefur áður unnið með þjálfara UMFN Unndóri Sigurðssyni sem þekkir vel til leikmannsins," segir í frétt á heimasíðu Njarðvíkur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.