Handbolti

Ciudad Real vann Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson í leik með Ciudad Real.
Ólafur Stefánsson í leik með Ciudad Real. Mynd/Vilhelm
Ciudad Real vann Barcelona á útivelli í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag, 31-28.

Ólafur Stefánsson var meðal markahæstu leikmanna Ciudad Real í leiknum en hann skoraði fimm mörk, þar af tvö úr víti.

Staðan var jöfn í hálfleik, 13-13. Ciudad Real er nú í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga - sex stig eftir þrjá leiki.

Kiel hefur unnið báða leiki sína til þessa í sama riðli en þeir voru báðir gegn Barcelona.

Börsungar hafa því tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa í riðlinum.

GOG er sömuleiðis stigalaust en eftir tvo leiki. GOG mætir Kiel á heimavelli í Meistaradeildinni á morgun.

Þessi lið leika í 4. riðli af fjórum en það er efsta liðið í hverjum riðli sem kemst áfram í undanúrslit keppninnar.

Í 2. riðli vann Rhein-Neckar Löwen sigur á Celje Lasko, 34-28. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark fyrir Löwen.

Rhein-Neckar Löwen er í öðru sæti riðilsins með fjögur stig en franska liðið Chambery er á toppnum með fullt hús stiga eða sex stig.

Þá tapaði FC Kaupmannahöfn fyrir rússneska liðinu Medvedi á heimavelli, 37-33. FCK er stigalaust á botni 1. riðils þar sem Hamborg er á toppnum með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×