Innlent

FL styrkur vekur upp spurningar um mútur

Styrkur FL-Group til Sjálfstæðisflokksins vekur upp spurningar um mútur að mati Svandísar Svavarsdóttur sem sat í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í REI-málinu.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að FL Group tók þátt í samningagerð Orkuveitur Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest um 20 ára einkarétt REI á öllum eignum Orkuveitur Reykjavíkur.

Svandís Svavarsdóttir sem þá sat í stjórn fyrir VG segir að þessi styrkur FL Group setji þessi mál í nýtt ljós.

„Við sáum strax að þarna var eitthvað óeðlilegt en á þeim tíma lá sú staðreynd ekki fyrir að FL Group hafði þá þegar afhent Sjálfstæðisflokknum mjög verulegar upphæðir. Það hlýtur að setja þessi óeðlilegu afskipti FL Group á milli REI og Orkuveitunnar áður en samruninn átti sér stað í algjörlega nýtt ljós," sagði Svandís.

Aðspurð hvort hún ætti við mútur sagði Svandís að þetta vekji spurningar um slíkt.

Við þetta má bæta að Svandís skorar á Guðlaug Þór Þórðarson og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson að upplýsa um framlög sem þeir fengu í prófkjörum fyrir kosningarnar 2006 og 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×