Handbolti

Metjöfnun hjá Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Bongarts

Kiel vann í kvöld sinn 20. sigur í röð í þýsku úrvalsdeildinni en það er metjöfnun. Kiel vann öruggan sigur á Minden, 39-30.

Kiel gerði óvænt jafntefli við Dormagen í fyrstu umferð deildarinnar í haust en hefur síðan þá ekki stigið feilspor. Með sigrinum í kvöld hefur Kiel jafnað met Lemgo sem vann 20 leiki í röð árið 2002.

Nikola Karabatic var ekki í leikmannahópi Kiel í kvöld en Alfreð Gíslason, þjálfari liðsins, sagði eftir leik að hann hafi verið tæpur vegna meiðsla. Liðið mætir Ciudad Real í Meistaradeild Evrópu á sunnudaginn og er vonast til þess að Karabatic verði með þá.

Þá vann Gummersbach fimm marka sigur á Balingen á útivelli, 31-26. Róbert Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach í leiknum.

Kiel er í efsta sæti deildarinnar með 41 stig og tíu stiga forystu á Lemgo sem er í öðru sæti og á leik til góða. Gummersbach er í sjöunda sætinu með 26 stig, Minden í tólfta sæti með fjórtán og Balingen í því sextánda með níu.

Þá fór einn leikur fram í norðurriðli B-deildarinnar. Hannover-Burgdorf vann stórsigur á Aurich, 38-17. Heiðmar Felixsson og Hannes Jón Jónsson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Burgdorf.

Liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig, sjö stigum á eftir toppliði Lübbecke sem Þórir Ólafsson leikur með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×