Viðskipti innlent

Segir endurreisn íslensku bankanna verða dýra

„Hann á að bjarga efnahag Íslands." Þetta segir í fyrirsögn á viðtali við sænska ráðgjafann Mats Josefsson frá Uppsölum í Svíþjóð sem hefur unnið að endurreisn bankakerfisins og fjármálalífsins hér á landi síðustu mánuði.

Í viðtalinu kemur fram að Mats Josefsson hafi verið á leið í helgan stein þegar óskað var eftir aðstoð hans við að leysa efnahagsvandann hér á landi, sem sé einn sá alerfiðasti í öllum heiminum og það þó að kreppan hrjái líka önnur lönd.

„Ekkert land í heiminum hefur lent jafn illa í því og Ísland og hvergi verður eins erfitt og dýrt að koma hagvextinum í gang aftur og auka trú á hagkerfinu," segir Josefsson í viðtalinu. „Ég hef tekist á við margar bankakreppur en enga eins og þessa á Íslandi."

Mats Josefsson er þekktur fyrir að hafa tekist á við margar bankakreppur, ekki bara í Svíþjóð heldur líka í Asíu, Suður-Ameríku og Austur-Evrópu. Hann segir að eftir einkavæðinguna hér árið 2003 hafi bankarnir byrjað að kaupa fyrirtæki út um allt. Ekkert þessu líkt hafi nokkru sinni átt sér stað.

Hlutabréfamarkaðurinn nífaldaðist, húsnæðisverðið þrefaldaðist, efnahagur fjölskyldnanna þrefaldaðist og ríkið fékk miklar tekjur.

„Endurbygging bankanna verður að vera algjört forgangsverkefni. Til að atvinnulífið virki verður það að fá stuðning af bönkum sem virka. En það verður dýrt. Ég held að Íslendingarnir geri sér ekki grein fyrir hversu dýrt það verður eða um 85 prósent af vergri landsframleiðslunni," segir Josefsson.- ghs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×