Bakþankar

Grillir í sumar

Bergsteinn Sigurðsson skrifar

Hamingjan þarf ekki að fara með himinskautum, segir í ágætri bók. Það eru orð að sönnu og sést sjaldan jafn greinilega á Íslandi og um kvöldmatarleytið á sólríkum sumardögum, þegar svalir, bakgarðar, verandir og pallar iða af lífi. Þá er hamingjan að standa fyrir framan snarkandi gasgrill, með sólgleraugu og opna bjórflösku, horfa á logana læsa sig í sérvalið nautakjöt úr einhverju kjötborðinu. Íslenska hamingjan, í sinni tærustu mynd, hefur tvær kryddlegnar hliðar, kviknar við mikinn hita og varir í um það bil tíu mínútur - fimm á hvorri hlið.

Á seinni hluta 20. aldar var kolagrillið hin helgu vé karlmennskunnar og nálægt því áttu konur og veifiskatar ekkert erindi. Hinn riddaralegi fyrirsláttur var eitthvað á þá leið að olíumettuð brunalyktin væri ekki konum sæmandi og gerði fíngerðum lungum þeirra jafnvel illt.

Raunverulega ástæðan var vitaskuld hið opinbera leyndarmál að konur væru liðónýtir grillarar sem kynnu ekki að tendra í kolum og ættu að halda sig við meðlætið.

Menn sem að öðru leyti komu aldrei nálægt matseld breyttust í meistarakokka í grennd við grillið, vissu nákvæmlega hvernig átti að stafla kolunum til að ná hámarksfuna og hversu mikill safi væri eftir í lærisneiðunum út frá blæbrigðum snarksins einu saman. Ekkert var þeim ofviða, þeir gátu grillað allt: lamb, sveppi, banana … þeir hefðu grillað skyr og harðfisk hefði einhver manað þá til þess.

Harðgerðustu karlmenn urðu meyrari en nýslátraður heimalningur við það eitt að finna lykt af brennandi kolum. Vírburstinn var þeirra veldisproti. En svo kom gasið, frelsaði konur úr viðjum kartöflusalatsins og kryddsmjörsins og þær tóku til óspilltra málanna við að raða grænmetisspjótum og lúðu á teinana. Eins og hendi væri veifað varð grillið hin göfuga matargerðarlist smáborgarans, eins og einhvers staðar stendur; það rekur enda smiðshöggið á heilaga þrenningu hins íslenska sumars: sól, hiti, grill.

Grillboð eru nefnilega táknmynd þess að það hafa loksins orðið langþráð endaskipti á hlutunum. Grámóskan hefur vikið fyrir tærbláum himni og grænum gróðri, ylurinn og birtan koma að ofan, brúnkan er ekta, við höfum fengið frí frá þinginu. Grillið er með öðrum orðum brennipunktur kjöraðstæðna á Íslandi, í orðsins fyllstu merkingu. Og full ástæða til að vegsama þær þá sjaldan við verðum þeirra aðnjótandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×