Handbolti

Alfreð hafði betur gegn Guðjóni Val - Lövgren ótrúlegur

Eiriíkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson tekur víti fyrir Rhein-Neckar Löwen.
Guðjón Valur Sigurðsson tekur víti fyrir Rhein-Neckar Löwen. Nordic Photos / Bongarts
Alferð Gíslason og Guðjón Valur Sigurðsson mættust í dag í fyrsta sinn síðan þeir fóru báðir frá Gummersbach fyrir nýhafið tímabil.

Guðjón Valur og félagar í Rhein-Neckar Löwen tóku á móti lærisveinum Alfreðs hjá Þýskalandsmeisturum Kiel sem höfðu betur í leiknum, 42-40.

Stefan Lövgren átti hreint ótrúlegan dag og skoraði átján mörk í leiknum, þar af átta úr vítum. Guðjón Valur var markahæstur leikmanna RHL með níu mörk, þar af þrjú úr víti.

Kiel virtist vera með unninn leik í höndunum en liðið hafði sex marka forystu, 37-31, þegar tólf mínútur voru eftir. Heimamenn gáfust ekki upp og með Guðjón Val í fararbroddi. Hann skoraði tvívegis á sömu mínútunni og náði þannig að minnka muninn í tvö mörk þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir.

Síðustu mínúturnar voru æsispennandi. Guðjón Valur skoraði níunda mark sitt þegar 34 sekúndur voru eftir og minnkaði þar með muninn í 41-40. En Henrik Lundström skoraði svo á lokasekúndu leiksins og tryggði þar með Alfreð og félögum tveggja marka sigur.

Úrslitin þýða að Kiel er komið á topp þýsku úrvalsdeildarinnar, um stundarsakir að minnsta kosti. Lemgo, Göppingen og Flensburg eru enn með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en Kiel hefur leikið fjóra - unnið þrjá og gert eitt jafntefli.

Þetta var fyrsti tapleikur Rhein-Neckar Löwen sem er um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×