Viðskipti innlent

Auður Capital fjármagnar fyrsta fagfjárfestasjóð sinn

Halla Tómasdóttir er starfandi stjórnarformaður Auðar Capital.
Halla Tómasdóttir er starfandi stjórnarformaður Auðar Capital. MYND/GVA

Auður Capital, fjármálafyrirtæki í eigu kvenna, hefur lokið fjármögnun á sínum fyrsta fagfjárfestasjóði sem nefnist AuÐur I.

„Það gekk ótrúlega vel að fjármagna sjóðinn, sérstaklega í ljósi þess hve erfitt árferðið er. Þetta skýrist sennilegast af því hversu áhugavert og spennandi tækifærið er,“ sagði Kristín Pétursdóttir, forstjóri félagsins. Hún vildi þó ekki gefa upp nöfn þeirra fjárfesta sem að verkefninu koma. Kristín segir að félagið sé byrjað að skoða áhugaverða fjárfestingakosti, en ekkert sé ákveðið í þeim efnum.

Segir í tilkynningu félagsins að mikill áhugi hafi verið fyrir sjóðnum og var heildarfjárhæð áskrifta 3,2 milljarðar króna. Alls tók 21 fjárfestir þátt í verkefninu og meðal þeirra eru flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins sem og aðrir stofnana- og fagfjárfestar.

Fjárfestingarsjóðurinn mun nýta tækifæri sem felast í vaxandi mann- og fjárauð kvenna og verður fjárfest í starfandi fyrirtækjum sem hafa mikla vaxtarmöguleika. Sérstaklega verður horft til fyrirtækja í eigu eða undir stjórn kvenna og fyrirtækja sem bjóða upp á vörur eða þjónustu sem höfða sértaklega til kvenna, eins og segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×