Handbolti

Velyky greindur aftur með krabbamein

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oleg Velyky.
Oleg Velyky. Nordic Photos / Bongarts

Sjúkra- og meiðslasaga þýska handboltakappans Oleg Velyky ætlar engan endi að taka. Hann greindist nýverið með krabbamein í annað skipti á fimm árum.

Velyky sleit krossbönd í hné eftir aðeins fjögurra mínútna leik í fyrsta leik Þjóðverja á EM í Noregi. Þá var hann samt búinn að skora tvö mörk í leiknum en tók vitanlega ekki meira þátt í mótinu.

Þetta var í annað sinn á tveimur árum sem hann sleit krossbönd í hné. Árið 2007 meiddist hann svo á hásin.

Honum tókst þó að sigrast á húðkrabbameini árið 2003 og hóf fljótlega að spila handknattleik á nýjan leik. Í lok árs 2006 samdi hann við Hamburg til þriggja ára en var svo seldur til Rhein-Neckar Löwen í janúar síðastliðnum, skömmu áður en EM í Noregi hófst.

Þrátt fyrir að krabbameinið hafi tekið sig upp á nýjan leik segist hann í samtali við þýska fjölmiðla ætla sér að spila handbolta á nýjan leik.

„Það þýðir ekkert að kvarta," sagði Velyky. „Ég lít jákvæðum augum á lífið og lít björtum augum á framtíðina. Læknarnir hafa sagt að ef meðferðin gengur vel get ég byrjað að spila fljótlega aftur. Ég kem aftur!"

Þjálfari Rhein-Neckar Löwen, Martin Schwalb, segist vart trúa öllu þessu. „Þetta er afskaplega sorglegt."

Forseti Hamburg, Andreas Rudolph, tók í svipaðan streng. „Við munum styðja Oleg eins mikið og við getum. Hann hefur þurft að þola svo mikið að hann mun standa þetta af sér líka. Og við viljum hjálpa honum og fjölskyldu hans við að ná því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×