Bakþankar

Í mat

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Nokkur sumur á tíunda áratugnum var ég svo heppinn að fá að forframast upp í starf skóflustráks í Pósti og síma. Að húka niðri í skurði með skóflu var ekki ónýtt starf, að minnsta kosti í minningunni. Best var að komast út á land, þá fékk maður dagpeninga og þar kynntist ég líka hinni alkunnu gestrisni bænda. Í eitt skipti vildi hins vegar svo óheppilega til að hæfileikar gestgjafans í eldhúsinu héldust ekki í hendur við gestrisnina.

Við vorum tveir að legga nýja símalínu að sveitabæ í annarri Barðastrandasýslunni (látum hjá líðast að gefa uppi nákvæmari staðsetningu). Bóndinn á bænum var roskinn piparsveinn en vitaskuld elskulegheitin uppmáluð og heimtaði að við borðuðum með honum hádegismat. Illu heilli var ásýndin á eldhúsborðinu nóg til að reka hungrið á braut. Á boðstólum voru skaðbrenndustu og ólystugustu fiskibollur sem ég hef nokkru sinni augum litið, bornar fram með hálfhráum kartöflum og gulum djús, sem grunsamleg slikja flaut ofan á.

Úr þessum aðstæðum var hins vegar ekki flúið. Eina ráðið var að láta sem ekkert væri heldur baða matinn í tómatsósu og stappa öllu saman þar til út varð svartrautt mauk og þræla því ofan í sig. Djúsinn sem skoluðum ösku- og kartöflubragðinu niður með bragðaðist næstum eins og vatn en guli liturinn varð eftir í glasinu. Að máltíðinni lokinni var boðið upp á lútsterkt, korgblandað kaffi, sem bragðaðis hreint ekki eins og nýleg uppáhelling.

Þegar við vorum farnir að sjá fram á að geta snúið aftur til vinnu bað sá gamli okkur að hinkra í augnablik. Hann hljóp inn í búr en sneri aftur sigri hrósandi á svip, með hálffullan, hálfgagnsæjan plastbrúsa. Hann tók tappann af, rétti brúsann í átt að okkur og spurði hvort við vildum. Við reyndum að malda í móinn en en gerðum okkur fljótt grein fyrir að yrði engu tauti við hann komandi og fengum okkur sopa. „Bruggaðirðu þetta sjálfur," spurði ég inn á milli þess sem ég saup hveljur. „Nei," svaraði karlinn, fékk sér slurk og gretti sig. „Einhver andskoti sem ég fann í fjörunni."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×