Innlent

Páll íhugar formannsframboð í Framsókn

Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, íhugar nú hvort hann muni gefa kost á sér til formanns Framsóknarflokksins á flokksþingi sem haldið verður í janúar á næsta ári. Ef af verður gæti hann hugsanlega att kappi við fyrrverandi ráðherra sem hann aðstoðaði um tíma.

Hugsanlegar breytingar á forystu Framsóknarflokksins hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum um helgina í tengslum við miðstjórnarfund flokksins sem haldinn var á laugardag. Á fundinum var samþykkt að leggja fram tillögu á komandi flokksþingi í janúar að sótt yrði um aðild að ESB. Á sama þingi verður kosin forysta fyrir flokkinn og í ljósi hinna nýju vendinga í Evrópumálum þykir staða Guðna Ágústssonar sem formanns Framsóknarflokksins hafa veikst.

Meðal þeirra sem hafa verið sem hugsanlegir eftir menn Guðna eru Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður flokksins, Siv Friðleifsdóttir þingflokksformaður og Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrverandi varaþingmaður. Siv sagði í samtali við fréttastofu í gær að framboð til formanns væri ekki á dagskrá en Valgerður, sem er í hópi Evrópusambandssinna í flokknum, útlokar ekki framboð.

Fréttablaðið greindi frá því um helgina að blaðið hefði heimildir fyrir því að Páll, sem einnig er í hópi Evrópusambandssinna, íhugaði formannsframboð. Það staðfesti Páll í samtali við fréttastofu í morgun. Hann sagðist þó enga ákvörðun hafa tekið í þeim efnum en að það skýrðist á næstu vikum hvort af því yrði. Aðspurður hvort hann teldi þörf á endurnýjun í flokksforystunni sagði Páll að á miðstjórnarfundinum um helgina hefði komið fram ákveðin krafa um endurnýjun og breytingar sem hann teldi að endurspeglaði að einhverju leyti umræðuna í þjóðfélaginu í heild.

Fari svo að Páll og Valgerður sækist bæði eftir formannsembættinu mætast þar fyrrverandi samstarfsmenn því Páll var aðstoðarmaður Valgerðar í embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra um tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×