Handbolti

Flensburg ósigrað á toppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson, leikmaður Flensburg.
Alexander Petersson, leikmaður Flensburg. Nordic Photos / Getty Images

Alexander Petersson og félagar í Flensburg eru á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.

Flensburg vann í gær sex marka sigur á Melsungen á útivelli, 38-32. Alexander Petersson átti góðan dag og skoraði fimm mörk en hann fékk einnig tvívegis tveggja mínútna brottvísun.

Flensburg er eina liðið sem hefur unnið alla fjóra leiki sína til þessa í deildinni. Lemgo og Göppingen eru þó enn með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en síðarnefnda liðið leikur í dag. Lemgo ekki fyrr en í miðri viku.

Kiel er í öðru sæti deildarinnar eftir nauman sigur á Guðjóni Val Sigurðssyni og félögum í Rhein-Neckar Löwen í gær.

„Þetta var frábær leikur og ótrúlega mikilvægur sigur," sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, við þýska fjölmiðla í gær. „Vonandi að menn gleymi nú leiknum hræðilega gegn Dormagen."

Kiel gerði óvænt jafntefli við nýliða Dormagen í fyrstu umferðinni og eru því með sjö stig eftir fjóra leiki.

Dormagen gerði sér þó lítið fyrir í gær og vann sigur á Hamburg sem er almennt talið næstbesta lið þýsku úrvalsdeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×