Handbolti

Langflestir spá Kiel sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason ræðir við sína menn í leikhléi í leik Kiel og Hamburg í gær.
Alfreð Gíslason ræðir við sína menn í leikhléi í leik Kiel og Hamburg í gær. Nordic Photos / Bongarts
Sextán af átján þjálfurum liðanna í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta spá því að Kiel muni standa uppi sem sigurvegari í deildinni, fimmta árið í röð.

Alfreð Gíslason tók við þjálfun Kiel nú í sumar en hann stýrði sínum mönnum til sigurs gegn Hamborg í árlegum leik um Supercup-bikarinn.

Þjálfararnir búast við því að þessi tvö lið muni einmitt stinga af í deildinni og berjast um meistaratitilinn.

„Eina liðið sem getur stöðvað Kiel er það sjálft," sagði Markus Baur, þjálfari Lemgo.

Flestir búast einnig við því að Flensburg og Rhein-Neckar Löwen muni komast næst því að blanda sér í toppbaráttuna.

Þessi fjögur lið náðu fjórum efstu sætunum í deildinni á síðasta keppnistímabili og keppa í Meistaradeild Evrópu á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×