Viðskipti innlent

Skilanefndin að ljúka rannsókn á milljarða millifærslum

Rannsókn á grunsamlegum millfærslum upp á hundrað milljarða króna af reikningum í Kaupþingi lýkur í þessari viku. Skilanefnd bankans mun skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um þetta mál og önnur strax í byrjun næstu viku.

Eins og fréttastofa greindi fyrst frá hefur skilanefnd Kaupþings rannsakað þessar gríðarlegu háu millifærslur á undanförnum vikum. Flóknar leiðir millifærslanna sem nema yfir hundrað milljörðum vöktu athygli og hefur skilanefndin ásamt óháðum sérfræðingi rannsakað málið.

Hundrað milljarðar voru millifærðir úr sjóðum Kaupþings inn á erlenda bankareikninga skömmu áður en bankinn var þjóðnýttur. Skilanefnd bankans rannsakar nú hvort þessum fjárhæðum hafi verið skotið undan eða hvort um eðlilega fjármálagjörninga var að ræða.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er gert ráð fyrir því rannsókn skilanefndarinnar ljúki fyrir helgi og mun nefndin skila skýrslu til Fjármálaeftirlitsins í framhaldinu.

Í viðtali við Markaðinn á Stöð 2 fyrir skömmu sagðist Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, ekki kannast við þessar millifærslur.

Ekki náðist í Steinar Þór Guðgeirsson, formann skilanefndar Kaupþings, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×